150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

311. mál
[16:51]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann tveggja spurninga. Sú fyrri er: Telur hv. þingmaður að yfirvöldum beri skylda til að framfylgja og fylgja eftir niðurstöðum í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu? Tillaga hans felur í sér ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og hv. þingmaður veit þar sem hann er flutningsmaður. Ég spyr að þessu vegna þess að haldin var ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla árið 2012 um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands en það skásta sem er hægt að segja um flokk hv. þingmanns er að hann hefur dregið lappirnar í því máli og reyndar verið á móti því alla tíð.

Það leiðir af sér seinni spurninguna sem er þessi: Hvað er það sem hv. þingmaður heldur að gerist ef þessi þingsályktunartillaga verður samþykkt og kjósendur segja: Já, þeir vilji hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni? Hvað þá? Mun þá ráðherra allt í einu standa upp og segja: Það er mikilvægt að við virðum beint lýðræði og þjóðaratkvæðagreiðslur? Mun hann leggja fram frumvarp sem sviptir Reykjavíkurborg væntanlega skipulagsvaldinu? Eða mun Reykjavíkurborg skyndilega sjá að sér og hugsa með sér: Best að hafa flugvöllinn áfram?

Hvað er það sem hv. þingmaður heldur að gerist? Ef ekkert, er þá hv. þingmaður opinn fyrir breytingartillögu sem ég hyggst leggja fram, gera hana bindandi og fela ráðherra að semja við Reykjavíkurborg um áframhaldandi veru flugvallarins í Vatnsmýri frekar en ráðgefandi skoðanakönnun sem þetta er þegar allt kemur til alls sem síðan er erfitt að sjá að flokkur hv. þingmanns og ríkisstjórnin sem hann styður muni standa við?