150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

311. mál
[17:13]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður svarar aftur eigin spurningu. Auðvitað vantar einhvers konar ferli. Okkur vantar svo oft á Íslandi skýrt ferli um hvernig hlutirnir eiga að ganga fyrir sig. Ég skil afstöðu Reykjavíkurborgar, hún vill breyta núverandi skipulagi Vatnsmýrarinnar og henni hefur ekki orðið ágengt með að fá svör um það hvað ríkið vill gera í flugvallarmálum. Mér finnst ekki jákvætt að borgin saumi jafn mikið að flugvellinum og hefur verið gert. Ég hefði viljað að komin væri lausn. Þegar umræðan byrjaði fyrir 20 eða 30 árum — hún byrjaði reyndar örugglega töluvert fyrr — hefði verið gagnlegt ef einhver hefði lagt fram tillögu um hvað skyldi gera til lengri tíma. Ég man eftir fullt af fínum tillögum en ég man aldrei eftir því að nokkur ríkisstjórn hafi sagt: Já, þetta er það sem við viljum.

Í staðinn eru alltaf handaveifingar og öðru hverju lögð til marklaus óbindandi þjóðaratkvæðagreiðsla, einhvers konar undirskriftasöfnun eða eitthvað sem er staðgengill fyrir ákvarðanatöku og fyrir hugmyndir um hvað skuli gera. Það sem ég vil sjá er að við ákveðum einhverja leið og búum til ferli, flott, en látum líka hæstv. samgönguráðherra fara eftir því ferli. Búum til einhverja lausn. Um leið og lausn er komin er ég nokkuð viss um að þá losni hjá Reykjavíkurborg um einhvers konar samningsvilja. Reyndar myndi ekki nokkur heilvita maður nokkurn tímann samþykkja að byrja á því að bíða endalaust eftir lausn sem enginn hefur lagt til. Ég skil það fullkomlega.