150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

311. mál
[17:38]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég held að það sem hv. þingmaður er þarna að ræða um sé í raun og veru aðdragandi þess að málið fer fyrir svokallaða Rögnu-nefnd. Ég man nú ekki nákvæmlega hverjir komu að þeirri ákvörðun og í sjálfu sér finnst mér það kannski ekki aðalatriðið heldur að þar var tekin ákvörðun um að skoða þá flugvallarkosti sem ég nefndi í ræðu minni áðan. Það sem mér finnst hafa vantað í þá umræðu og þau störf þeirrar ágætu nefndar er að ekkert var rætt um Keflavíkurflugvöll, hvort það væri fýsilegur kostur að byggja upp innanlandsflug á Keflavíkurflugvelli. Auk þess var ekki rætt um flugvöllinn í Vatnsmýrinni, hver uppbygging hans þyrfti að vera og hver kostnaðurinn yrði í þeim efnum. Þarna var því svolítið verið að stýra störfum þessarar nefndar frá tveimur kostum sem hefðu kannski verið skynsamlegastir að því leyti til að þeir hefðu ekki verið eins kostnaðarsamir og þar eru þegar til staðar flugvellir og mannvirki. Hins vegar var ákveðið að fara að skoða nýja möguleika og niðurstaðan varð Hvassahraun sem kom mér persónulega töluvert á óvart. Löngusker voru t.d. einn möguleiki sem mörgum hefur þótt áhugaverður kostur. En þetta var niðurstaða nefndarinnar og ég taldi rétt að ræða það í þessu samhengi vegna þess að horft er til þessarar staðsetningar ef niðurstaðan yrði sú í svona könnun að meiri hlutinn vildi að flugvöllurinn færi héðan og þá er nauðsynlegt að ræða það í því samhengi.