150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

311. mál
[17:42]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Eins og ég rakti í ræðu minni er þessi ályktun flokksþings Framsóknarmanna mjög skýr. Flokkurinn ályktar um að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni. Þá hefði ég talið það eðlilegt að formaður flokksins hefði reynt að koma í kring einhvers konar samkomulagi við borgaryfirvöld þess efnis að hann verði áfram í Vatnsmýrinni. Það hefði maður talið rökrétt framhald af því sem flokksmenn höfðu ályktað. Þess vegna kom það mér sérstaklega á óvart að hæstv. samgönguráðherra skyldi hafa skrifað undir samkomulag um að rannsaka Hvassahraun sérstaklega. Það þýðir náttúrlega að ætlunin er þá að flytja flugvöllinn þangað og vissulega er það rétt hjá hv. þingmanni að 2022 á greinilega að vera einhver vendipunktur í þessu.

Þá minni ég bara á að Reykjavíkurborg hefur ákveðnum skyldum að gegna í þessum efnum og getur ekki tekið slíka einhliða ákvörðun eftir tvö ár, að flugbraut verði lokað sem gerir það að verkum að flugvöllurinn muni loka. Það er ábyrgðarhluti af hálfu borgarinnar gagnvart landsmönnum öllum að tryggja að innanlandsflug sé með eðlilegum hætti. Þetta hefði veruleg áhrif á ferðaþjónustu og alla þá þjónustu sem landsmenn þurfa að sækja til höfuðborgarsvæðisins. Að því leyti til hefði ég talið að samgönguráðherra hefði þá reynt að knýja fram einhvers konar niðurstöðu í því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni en ekki farið í ítarlegar rannsóknir sem kosta peninga. Ég hefði viljað sjá þessa peninga nýtta í annað. Það eru 200 milljónir af opinberu fé sem fara í þessar rannsóknir. Rannsóknir voru gerðar fyrir mörgum árum í Hvassahrauni og niðurstöður voru ekki jákvæðar. Þess vegna tel ég að menn hafi ekki staðið nægilega vel að þessu máli.