150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

311. mál
[18:04]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og nokkrir aðrir þingmenn þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram. Auðvitað hefur hún strangt til tekið ekki öll verið um efni tillögunnar í þrengsta skilningi heldur hefur hún að mörgu leyti farið um víðan völl, snúist um almenningssamgöngur, flugsamgöngur í landinu yfirleitt, skosku leiðina o.fl. Margt skynsamlegt hefur verið sagt og ég er ekki sammála því öllu en það er allt í lagi. Það er eitt sem vekur athygli mína þegar maður horfir yfir lista flutningsmanna þessarar tillögu, þ.e. að flutningsmenn eru fyrst og síðast þingmenn sem ekki eru þingmenn Reykjavíkurkjördæmanna utan einn, og síðan er þarna slangur af þingmönnum úr Suðvesturkjördæmi. Annars eru þetta upp til hópa þingmenn landsbyggðarkjördæmanna og í því felast vissulega ákveðin skilaboð. Það er eins og þarna endurspeglist einhvers konar togstreita, skulum við segja, milli höfuðborgar og landsbyggðar.

Ég hef talið mig og er vinur flugvallarins í Vatnsmýri. Ég vil gjarnan að þar sé flugvöllur áfram. Þetta get ég meira að segja sagt þrátt fyrir að hafa búið undir aðflugslínu hans síðastliðin 20 ár og geta haldið nokkuð nákvæma tölu um það hve margar flugvélar fljúga yfir á dag, sérstaklega á þeim dögum sem ég er ekki í vinnunni. Ég er einn af þeim sem þetta truflar ekki neitt. Ég veit að sumir nágranna minna hafa af þessu nokkurt angur en það er nú bara eins og það er, fólk er mismunandi.

Mér þykir mikilvægt að það sé flugvöllur í Reykjavík en það þýðir ekki að ég vilji þvinga sveitarfélagið Reykjavík til að hafa flugvöllinn nákvæmlega á þessum stað. Það skapast ákveðin togstreita milli skipulagslaga og skipulagsvalds sveitarfélaganna og kannski að öðru leyti laga um málefni sveitarfélaga. Ég spyr: Ef við sem samfélag seildumst að þessu leyti inn á skipulagsvaldið með þessum hætti, hvar ættum við þá að stoppa í því? Væru menn til að mynda sáttir við að við segðum að Reykjavík yrði að byggja þjóðarleikvang á einhverjum tilteknum stað eins og Laugardalshöll? Hún yrði að byggja nýjan þjóðarleikvang vegna þess að þetta væri nú leikvangur allrar þjóðarinnar og allir þyrftu að komast þangað til að horfa á íþróttaviðburði o.s.frv., væri það sanngjarnt? Vegna þess að það er svo mikilvægt fyrir samgöngur út úr borginni, og mikilvægt fyrir tengslin norður í land, að Sundabraut verði byggð, eins og sumum finnst, ættum við þá að beina borginni í þá átt? Ættum við að láta það gilda um útivistarsvæði Reykvíkinga, Heiðmörk? Þannig mætti lengi telja og ég veit að hv. þingmenn sjá alveg hvað ég er að fara, að umræðan er í mínum huga stærri en það sem snýr að flugvellinum.

Kannski aftur varðandi það mál: Ég man raunar að þegar atkvæðagreiðslan — hvað má kalla hana, ætli hún hafi ekki talist vera íbúakosning í Reykjavík — fór fram árið 2001 fannst mér og mörgum nágrönnum mínum það sérkennilegt, þar sem við bjuggum undir aðflugslínunni, að við höfðum ekki atkvæðisrétt af því að það vill svo til að við búum hinum megin við Fossvoginn. En við sættum okkur við það. Jú, vegna þess að verið var að kjósa um skipulagsmál í Reykjavík. Þannig var það bara og við verðum að horfast í augu við það. Það er hins vegar kannski aðeins öðruvísi þegar við hugsum um svæði sem við myndum kalla þjóðlendur. Tökum óspillt víðerni einhvers staðar, þá má velta því fyrir sér hvort íbúar annars staðar af landinu ættu að koma meira að málum, væntanlega vegna þess að það eru engir íbúar á þeim svæðum. Tökum Vatnajökul sem dæmi. Það býr enginn á Vatnajökli en Reykjavíkurflugvöllur er þannig staðsettur að hann er inni í miðri íbúðabyggð og íbúðabyggðinni í kring hafa í gegnum tíðina verið sett takmörk vegna flugvallarins.

En aftur: Ég er fylgjandi því að hafa völlinn þar sem hann er. Mér finnst það skipta máli. En ég held að niðurstaðan í því máli fáist kannski ekki endilega með þessari atkvæðagreiðslu. Ég held að niðurstaðan í því máli fengist miklu fremur í samtali á milli stjórnvalda og Reykjavíkurborgar. Telji menn að ríkisvaldið sé ekki nægilega nestað í þær viðræður, með öllum þeim skoðanakönnunum sem hafa verið gerðar í gegnum tíðina um vilja landsmanna í heild, þá veit ég ekki alveg hvað hefur breyst svona mikið í samfélaginu. Þessar viðræður þurfa að fara fram. Ríkið getur ekki stigið á skipulagsvald sveitarfélaganna nema brýn nauðsyn búi að baki. Það eru reyndar til leiðir í lögum til þess. Ég er algjörlega á því að völlurinn eigi að vera í Reykjavík en um það þarf að semja á milli þeirra aðila sem um það eiga að fjalla.