150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

311. mál
[18:12]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kom inn á kosninguna í Reykjavík 2001 um Reykjavíkurflugvöll þar sem tölfræðin var þannig að 37% kosningarbærra tók þátt í þeim kosningum. 19% vildu að völlurinn færi 2016 og 18% að völlurinn væri áfram. Það voru 300 atkvæði þarna á milli. Þetta var eiginlega bara jafntefli. Það sem breytti í leikreglunum var að það voru ákveðnar grunntölur á bak við það ef hún ætti að vera gild; þá þyrfti ákveðna þátttöku og ákveðin hlutföll. Síðan var þeim leikreglum breytt eftir á, svo að því sé haldið til haga í sögulega samhenginu. Það er mikilvægt að þessu sé haldið til haga vegna þess að raunverulega hefur það ekki komið fram hvernig gengið var til kosninga, á hvaða forsendum. Svo hafa menn spilað sig frá því og breytt leikreglum eftir á.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Ég hef aldrei náð því að vera að bera saman grunninnviði í öryggislegu tilliti og svo þjóðarleikvang eða aðra hluti sem ekki hafa sömu vigt út frá öryggissjónarmiðum. Það er ekki hægt að bera þetta tvennt saman. Ég get bent hv. þingmanni á að ég skoðaði fyrir einhverjum árum hvernig fólk ferðaðist á milli Akureyrar og Reykjavíkur. Það var mjög áhugavert. Hátt í 40% fljúga á milli en hin 60% keyrðu ef horft var yfir árið. En það sem var áhugaverðast er að yfir vetrarmánuðina fjóra til fimm, þegar veður er sem verst, þegar það er myrkur, þá fljúga 65% en 35–40% keyra. Þetta er bara til að sýna fram á hve mikilvægir þessir þættir eru fyrir landsbyggðina.