150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

311. mál
[18:14]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni andsvarið. Ég kom ekki mikið inn á niðurstöðurnar í íbúakosningunni sem fór fram í Reykjavík, enda var hún haldin fyrir 20 árum. Mér finnst það gamlar fréttir, liggur mér við að segja. Ef við ætlum að byggja eitthvað á því núna erum við kannski ekki alveg að vinna í nútímanum. En varðandi það sem þingmaðurinn spurði um, þetta með sjúkraflugið og öryggisinnviðina, þá er ég alveg sammála þingmanninum um það. Það er ein af ástæðunum fyrir því að ég tel mjög mikilvægt að flugvöllurinn verði áfram í Reykjavík.

Eins og hv. þingmaður veit væntanlega hef ég búið nokkur ár úti á landi og starfað þar, og hef m.a. lent nokkrum sinnum á Reykjavíkurflugvelli í sjúkraflugi. Ég þekki því mjög vel hvað völlurinn getur verið gríðarlega mikilvægur í því tilliti. Afstaða mín til vallarins mótast auðvitað að hluta til af því. En sú afstaða mín leyfir mér samt ekki að vilja stíga á tær sveitarfélaganna eða alla vega ekki nema sýnt sé að samkomulag náist ekki. Hingað til höfum við getað náð samkomulagi milli ríkis og sveitarfélagsins Reykjavíkur í þessu máli og kannski má velta því fyrir sér hvort það samráð ætti að ná yfir allt svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins. Í stóra samhenginu skiptir það alla höfuðborgarbúa og allt skipulag höfuðborgarsvæðisins máli hvar þessi blessaði flugvöllur er. En það er önnur saga.