150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

311. mál
[18:17]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef rætt hér í dag þetta öryggishlutverk almennt í samhengi við sjúkraflugið en lítið hefur verið rætt um varaflugvelli. Það má leiðrétta það sem hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson sagði í fyrri ræðu en það getur verið að það hafi ekki komið nægilega skýrt fram að öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna hefur reynt að koma því á framfæri að það er ekki rétt að draga úr gildi Reykjavíkurflugvallar sem varaflugvallar fyrir ákveðnar vélartegundir eins og gert hefur verið. Það er búið að endurreikna það þannig að það hlutverk er á nýjan leik komið inn í þá sviðsmynd. Það er svolítil lausung í umræðunni um varaflugvelli. Við höfum ekki rætt það mikið í vetur en stundum áður að við erum með gríðarlega umfangsmikinn flugrekstur og væntanlega koma 14–15% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar í gegnum flugreksturinn í dag. Þá vekur það undrun hversu litla athygli þetta fær í stóra samhenginu þegar maður skoðar öryggismálin. Það var umræðan um Max-vélarnar sem kom þessu af stað, þ.e. að Reykjavíkurflugvöllur gæti ekki komið til móts við þær sem varaflugvöllur en öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna hefur reynt að koma því til skila að hann gegnir mikilvægu hlutverki fyrir þær vélar. Þó að þær hafi lítið flogið undanfarið ár er hlutverkið stórt og í stórum hluta, mig minnir 80%, flugtaka Icelandair í Keflavík notast við Reykjavíkurflugvöll sem varavöll. Þetta er í öllum flugplönum. Við höfum ekkert rætt þetta en fyrst við erum að ræða þetta efnislega skín það svo víða í gegn í stóra samhenginu hve mikilvægt þetta er. Í greinargerðinni er minnst á skýrslu Þorgeirs Pálssonar, fyrrverandi flugmálastjóra, frá árinu 2017. Þar er talað um mikilvægi þess að tveir flugvellir séu á suðvesturhorni landsins, að það sé öryggismál.