150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

311. mál
[18:19]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að það er mikilvægt að við séum ekki með varaflugvöll einhvers staðar hinum megin á landinu. Ég held að það sé hárrétt hjá þingmanninum. Enda hefur þingmaðurinn af visku sinni einmitt orðað spurninguna á þá vegu, þ.e. uns annar jafn góður eða betri kostur er tilbúinn til notkunar. Þetta er kannski lykilatriðið í þessum þankagangi hv. þingmanns. En eins og ég nefndi í ræðu minni áðan þá er ég ekki sannfærður um að þetta nesti þurfi í samningaviðræðurnar við borgina, að það þurfi endilega að nesta ríkið eða stjórnvöld almennt inn í þær samningaviðræður með þessu, með þjóðaratkvæðagreiðslu. Þær skoðanakannanir hafa ítrekað sýnt að verulegur meiri hluti þjóðarinnar vill að þessi flugvöllur sé í Reykjavík, það er ekkert flóknara en það. Það á að vera það meginspil sem ríkið hefur á hendi þegar það er að semja við borgina eða höfuðborgaryfirvöld eins og kannski væri skynsamlegra í þessu máli. Ef svo færi að flugvöllurinn flytti úr Vatnsmýrinni á annan stað í nágrenni Reykjavíkur veit hv. þingmaður jafn vel og ég að við erum býsna fljótt komin út fyrir sveitarfélagamörk Reykjavíkur um leið og við hreyfum okkur eitthvað hér í nágrenninu og þá þyrftu önnur sveitarfélög að koma að.