150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

311. mál
[18:32]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Ég er ekki einn af flutningsmönnum þingsályktunartillögunnar og styð hana ekki, einfaldlega vegna þess að ég held að hún sé ekki til þess gerð að leysa það vandamál sem uppi er þegar kemur að framtíð flugvallarins í Vatnsmýrinni. Ég held reyndar að hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson sem talaði á undan mér sé heldur ekki með svarið, að segja að ný stjórnarskrá sé einhvern veginn til þess fallin að leysa þau vandamál sem uppi eru um framtíð flugvallarins í Vatnsmýri.

Ég stóð lengi vel í þeirri meiningu að flugvöllur á höfuðborgarsvæðinu gæti hvergi annars staðar verið en einmitt í Vatnsmýrinni. En ég hef sætt mig við það að flugvöllurinn verði ekki í Vatnsmýrinni til allrar framtíðar. Það er einfaldlega búið að ákveða það. Í mínum huga snýst því málið um að tryggja að flugvöllurinn sé starfhæfur í Vatnsmýrinni þar til annar jafn góður eða betri kostur er tilbúinn til notkunar. Nú vísa ég beint í orðalagið í spurningunni sem hv. þingmenn leggja til með þessari þingsályktunartillögu og ég held að stóra málið snúist í rauninni um það. Því hefur verið lýst hér, og ég held að allir þekki þann ágreining sem uppi hefur verið um flugvelli milli Reykjavíkurborgar og stjórnvalda um framtíð innanlandsflugs og framtíð flugvallarins. Því miður hefur okkur ekki tekist annað en að vera á öndverðum meiði um hvar flugvellinum væri best niður komið, en engu að síður er ótrúlega mikil vinna sem hefur farið í það að reyna að leita að nýjum stað fyrir flugvöllinn. Kannski erum við ekki endilega komin til botns í því en þó er verið að stíga ákveðin skref til að fullreyna það.

Það er alveg rétt, eins og hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson sem fer fyrir þessari tillögu hefur komið inn á með mikilli þekkingu sinni á flugmálum, að nýr flugvöllur getur aldrei tekið til starfa nema eftir mikinn undirbúning og verulega mikla undirbúnings- og framkvæmdavinnu og hvað varðar kostnað eins og hann liggur fyrir er. Þess vegna held ég að það sé auðvitað mikilvægt að sá aðili sem vill losna við flugvöllinn frá sér, sem er í þessu tilfelli í Reykjavíkurborg, verði líka að átta sig á því að hann kunni að þurfa að kosta einhverju til við uppbyggingu á flugvelli einhvers staðar annars staðar.

Ég vildi koma hingað upp og lýsa þeirri skoðun minni að þrátt fyrir að ég styðji ekki tillöguna, vegna þess að ég held að hún myndi ekki færa okkur einhverja lausn í þessu vandamáli, er hún engu að síður mjög góður vettvangur til að vekja upp umræðuna um stöðu málsins. Við sjáum það best á þeirri umræðu sem átt hefur sér stað hér í dag og kannski ekki síst að benda á mikilvægi þess að tryggt verði að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni virki þar til annar kostur er tilbúinn til notkunar. Ég hef staðið í þeirri meiningu að samkomulag hæstv. samgönguráðherra við Reykjavíkurborg tryggi það. En það er alveg rétt sem bent hefur verið á að aðalskipulag Reykjavíkurborgar gerir ráð fyrir að flugvöllurinn víki. Þar af leiðandi er algjörlega nauðsynlegt fyrir Reykjavíkurborg að bregðast við og breyta aðalskipulagi í samræmi við það samkomulag.

Mig langar líka að lýsa því yfir, vegna þess að mikil umræða hefur verið um það hvort hér sé verið að taka með einhverjum hætti skipulagsvald af sveitarfélaginu, að ég hef lengi talað fyrir því að mikilvægir grunninnviðir, sem skipta þjóðina alla máli og hægt er að flokka sem þjóðaröryggismál, séu með einhverjum hætti tryggðir í landsskipulagi. Þess vegna er ég einn af flutningsmönnum á skýrslubeiðni sem hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson fór líka fyrir um einmitt úttekt á því hvaða mannvirki eða framkvæmdir það eru sem skipta okkur miklu máli út frá þjóðaröryggi. Þrátt fyrir það að virða skipulagsvald sveitarfélaganna og sjálfstæði sveitarfélaganna mikils þá held ég engu að síður að það séu einhverjar framkvæmdir, einhver mannvirki sem eru þess eðlis að hjá því verður ekki komist að þau verði mörkuð í landsskipulagi eða ákvörðuð með einhverjum öðrum hætti en að þau séu bara inni á borði hjá viðkomandi sveitarfélagi. Ég hef sérstaklega nefnt í þessu alls konar samgöngumannvirki. Það kunna að vera vegir eða hafnir og það kunna að vera flugvellir, ég er ekki með þessu að segja að svo sé, en það kunna að vera einhverjir flugvellir, og er t.d. svo með alþjóðaflugvöllinn okkar, og ekki síður raflagnir. Þetta eru svona mannvirki sem flæða oft milli sveitarfélaga og yfir sveitarfélög og sveitarfélögum er oft nauðin ein engu að síður að samþykkja það. Samráð þarf auðvitað að vera í kringum slíkt á ákveðnu stigi, en ég hef talað fyrir því að lausnin til að tryggja mikilvæga grunninnviði sem hafa með þjóðaröryggismál að gera sé að festa það í landsskipulagi. Ég efast ekki um að það kunni að vera flókið og fólk hafi á því mismunandi skoðanir og það þarf þá bara að taka þann slag í eitt skipti fyrir öll og festa slíkt niður.

Þrátt fyrir góðan vilja til að koma með umræðu um þetta mikilvæga mál, sem er flugvöllurinn í Vatnsmýrinni og framtíð hans, þá ætla ég að leyfa mér að efast um að þjóðaratkvæðagreiðsla væri til þess fallin að leysa það mál sem er í hnút, en ítreka engu að síður þá afstöðu mína að mikilvægt er að við tryggjum það að flugvöllurinn í Vatnsmýri fari hvergi fyrr en annar kostur er tilbúinn. Í mínum huga þarf ekki þjóðaratkvæðagreiðslu um það. Það er þjóðaröryggismál að svo sé. Við þurfum að standa vörð um það.