150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

311. mál
[18:39]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S):

Herra forseti. Mig langar rétt að klára með nokkrum punktum sem snúa að þessari umræðu. Það var komið inn á undirskriftasöfnunina Hjartað í Vatnsmýrinni 2013 rétt áðan þar sem söfnuðust 70.000 undirskriftir. Um 22% Reykvíkinga skrifuðu undir, 28% kosningarbærra Íslendinga rituðu nafn sitt á það mál á sínum tíma. Það hafa aldrei safnast jafn margar undirskriftir jafn hratt í nokkurri undirskriftasöfnun, þetta voru bara fimm vikur.

Ég er tala um, hvort sem er í þessu máli eða skýrslubeiðni um grunninnviði og öryggishagsmuni landsins, þjóðaröryggishagsmuni, að við þurfum raunverulega að setja upp þetta skipulag. Svíarnir eru með sitt landsskipulag, þess vegna set ég grunninnviðina inn í það, og svo eru þeir með þetta hugtak „grundriksintresse“ sem þeir settu inn í löggjöf sína að mig minnir á sjöunda áratug síðustu aldar.

Það er búið að fara vítt og breitt í þessari umræðu en það vantar svolítið af lausnum, ef menn geta ekki sætt sig við þessa. Hér er ákveðin tilraun til að fá vilja þjóðarinnar fram. Það var undirskriftasöfnun á sínum tíma og ég held að svona margar undirskriftir á jafn skömmum tíma endurspegli mjög skýran vilja. Skoðanakannanir sem hafa verið í fjölmiðlum eru mjög skýrar og hafa verið það í ár og áratugi. Hér er farið fram með ákveðinn sáttatón með því að tala um að flugvöllurinn verði á sínum stað þangað til jafn góður eða betri kostur finnist. Þannig er tillagan um þjóðaratkvæðið og er heilmikill sáttatónn í henni.

Það sem er hins vegar vandamálið núna er að vera vallarins í Vatnsmýrinni er aðeins tryggð í aðalskipulagi til ársins 2022, sem er bara að renna upp. Það hefur komið fram í þessari umræðu að það tæki 13–17 ár að kom upp nýjum velli í Hvassahrauni með öllu sem því fylgir. Þarna eru því andstæður. Það sem ég hef áhyggjur af varðandi samkomulagið sem var gert um Hvassahraun, að skoða kosti þar og hvort það væri mögulegt í þeirri stöðu að koma upp flugvelli þar, er að komið hefur fram að ekki er vilji hjá Reykjavíkurborg til að tryggja veru vallarins áfram í aðalskipulagi. Það á sem sagt ekki að breyta aðalskipulaginu. Ég sem gamall sveitarstjórnarmaður hef staðið í skipulagsmálum og veit að þá yrði uppi ófremdarástand. Ef það næst ekki fram veit ég ekki hvað menn ætla að gera eftir tvö ár til að taka þau skref. Þetta verður að skýra í allri þessari umræðu. Það er stóri punkturinn og vandamál þessa máls, að menn geti ekki náð utan um þetta og þau samkomulög sem hafa verið gerð undanfarið um að reyna að ná sátt um eitthvert ferli og annað hafa bara ekki staðist. Þess vegna hefur verið ákveðinn bútasaumur gegn flugvellinum öll þessi ár, ekki síst síðustu sex, sjö ár. Það er stöðugt farið gegn honum. Á sama tíma þekkjum við öll mikilvægi hans, hvort sem það er sjúkraflugið eða bara út frá samgöngum. Það hefur verið áætlað að ef innanlandsflugið yrði t.d. flutt á Keflavíkurflugvöll yrði fækkun um 30–40%. Þar með væru allar forsendur fyrir innanlandsflugi eins og við þekkjum það í dag brostnar. Að innanlandsflugið brysti væri þyngsta höggið sem landsbyggðin gæti orðið fyrir. Það yrði svakalegt högg fyrir landsbyggðina ef innanlandsflugið dytti niður.

Þegar ég er á þingi bý ég í Vesturbæ Reykjavíkur. Ég er í miðborginni í sjálfu sér, (Gripið fram í: Miðbæjarrotta.) miðbæjarrotta eins og þingmaðurinn segir. Ég er átta mínútur að ganga niður á þing. Ég var búinn að gera þetta í tvær, þrjár vikur þegar ég fór að skynja af hverju margir sjá ekki mikilvægið í stóru myndinni. Þegar ég geng þessar átta mínútur meðfram Tjörninni, gamla kirkjugarðinum og um Vesturbæinn er allt á sömu torfunni. Ég er með Háskóla Íslands við hliðina á mér og meira og minna alla stjórnsýslu landsins. Ég er með sjúkrahúsið sem tekur öll erfiðustu tilvik landsins í 10–15 metra göngufæri frá mér. Öllu er klínt á sömu torfuna. Það er þetta sem maður er oft að reyna að benda á í umræðunni þannig að fólk skilji þær gjörólíku aðstæður sem þeir sem búa á þessari torfu búa við samanborið við fólk sem býr annars staðar. Í undirskriftasöfnun okkar á sínum tíma kom líka í ljós að það var gríðarlegur munur innan borgarinnar á því hverjir skrifuðu undir og hverjir ekki. Í hverfum í Grafarvogi og lengra frá var miklu meiri stuðningur við flugvöllinn. Á þeirri torfu sem ég bý sjálfur á í dag var stuðningurinn einna minnstur, enda er maður þar í göngufæri við alla þjónustu. Ég held að skilningurinn á stóra samhengi hlutanna sé bara ekki alveg til staðar.

Það er hægt að ræða þetta endalaust en rétt í lokin vil ég þakka fyrir umræðuna. Vonandi leiðir hún okkur áfram og vonandi verður málinu vísað til umhverfis- og samgöngunefndar til frekari umfjöllunar.