150. löggjafarþing — 65. fundur,  3. mars 2020.

viðskiptasamningar við Breta.

[13:51]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég vil í upphafi taka undir þakkarorð til stjórnvalda, sóttvarnalæknis, lögreglu og allra annarra sem gegna ábyrgðarstörfum í þágu þjóðarinnar vegna kórónuveirunnar.

Hæstv. utanríkisráðherra, herra forseti, hefur með réttu lagt áherslu á samstarf við Breta í tilefni af útgöngu þeirra úr Evrópusambandinu með það fyrir augum að tryggja mikilvæga viðskiptahagsmuni Íslendinga við Bretland. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um hvað líði undirbúningi að viðræðum og hvaða tímaskeið ráðherra sjái fyrir sér í því efni. Sér í lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort ákvarðanir hafi verið teknar eða séu í bígerð um samstarf við norsk stjórnvöld í þessu efni. Eins vil ég spyrja hæstv. ráðherra um mat hans á því hvort aðild okkar Íslendinga að Evrópska efnahagssvæðinu, EES, setji okkur skorður um efni eða form fyrirhugaðs viðskiptasamnings við Bretland.