150. löggjafarþing — 65. fundur,  3. mars 2020.

rannsókn á brottkasti Kleifabergs.

[13:58]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Í nóvember 2017 opinberaði sjónvarpsþátturinn Kveikur meint brottkast í fiskiskipinu Kleifabergi. Nýjustu myndskeiðin voru frá árinu 2016 en eldri myndskeið frá 2008–2011. Frásagnir sjómanna voru ótvíræðar. Brottkast virtist ástundað í ríkum mæli um borð í þessu skipi sem og fleirum. Fiskistofa fékk upptökur og frásagnir skipverja í hendur og ákvað þriggja mánaða veiðileyfissviptingu. Samkvæmt vinnureglu Fiskistofu ber jafnframt að kæra svo stórfelld brot til lögreglu. Það var ekki gert. Veiðileyfissviptingin var kærð til ráðuneytis hæstv. sjávarútvegsráðherra sem þrátt fyrir þau gögn sem þá höfðu birst frestaði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar svo að skipið gæti áfram stundað veiðar á meðan málið væri í vinnslu. Var það gert þrátt fyrir skýr lagaboð um að kæra fresti ekki réttaráhrifum. Ráðuneytið felldi niður málið er varðaði eldra brottkast en sendi nýjustu upptökur og frásagnir af ársgömlum stórfelldum brotum aftur til Fiskistofu til frekari rannsóknar. Eins og áður segir var málið ekki kært til lögreglu, eins og vinnureglur Fiskistofu mæla fyrir um né heldur virðist Fiskistofa hafa haldið áfram rannsókn á þessu brottkasti sem birtist í Kveik eins og ráðuneytið fyrirskipaði.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Telur hann þessa málsmeðferð vera í samræmi við lög og reglur og til þess fallna að tryggja hagsmuni eiganda auðlindarinnar? Var honum kunnugt um að rannsókn á brottkastinu hefði verið svæfð hjá Fiskistofu? Telur hann þetta góð skilaboð til útgerðarinnar og sjómanna um meðferð á auðlindum hafsins?