150. löggjafarþing — 65. fundur,  3. mars 2020.

rannsókn á brottkasti Kleifabergs.

[14:02]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið en það er einmitt þetta með skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2018. Þar koma fram alvarlegar ábendingar um að stjórnvöld hafi markvisst dregið úr mætti Fiskistofu til eftirlits. Fiskeftirlitsmönnum fækkaði um fjórðung, eða 22, á tíu árum og er eftirlit með brottkasti talið veikburða og ómarkvisst. Svör ráðuneytisins voru að þar telji fólk brottkast óverulegt en Ríkisendurskoðun hafnaði þeirri fullyrðingu sem rakalausri enda engin gögn sem styðja hana. Nú hefur þremur eftirlitsmönnum til viðbótar verið tilkynnt að störf þeirra verði lögð niður um áramót. Einmitt þeir þrír hafa til þessa dags verið greiddir af útgerðarmönnunum sjálfum sem opinberlega hafa kvartað sáran yfir því.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hyggst hann bregðast við þeim tíðindum að enn eigi að fækka eftirlitsmönnum? Hyggst hann mögulega breyta gjaldtökuheimildum þannig að Fiskistofa geti rukkað útgerðir um eðlilegt verð fyrir eftirlitið eða kann að vera (Forseti hringir.) að þessi aðhaldskrafa, sem sögð er vera ástæða þess að verið er að fækka eftirlitsmönnum í uppsagnarbréfi þeirra, (Forseti hringir.) sé kannski einmitt gerð til þess að koma í veg fyrir nauðsynlegt eftirlit með þessari auðlind íslensku þjóðarinnar?