150. löggjafarþing — 65. fundur,  3. mars 2020.

svör við fyrirspurnum.

[14:30]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé rétt gisk hjá forseta að minni hluta fyrirspurna hafi verið svarað innan tímafrests þetta misserið. Mig langar að nefna tvær fyrirspurnir sem ég lagði fram til utanríkisráðherra sem mér þykja sýna þetta í ákveðnu ljósi, annars vegar fyrirspurn um birtingu alþjóðasamninga en mikill misbrestur er á þeim málum hjá Stjórnarráðinu. Hún var lögð fram 12. desember og þrisvar hefur verið beðið um frest til að veita svar. Reyndar fjallaði ríkisstjórnin í millitíðinni um átaksverkefni vegna birtingar alþjóðasamninga þannig að ég reikna með að þetta verði mjög jákvætt svar þar sem búið sé að laga vandann í millitíðinni.

Hins vegar langar mig að nefna aðra fyrirspurn, fyrirspurn um stríðsáróður sem var lögð fram í nóvemberlok. Þar hefur fjórum sinnum verið beðið um frest. Mig langar að velta því upp hvort forseti sé hreinlega of bóngóður þegar ráðuneytin sækja fjórum sinnum um frest vegna fyrirspurnar sem átti að svara fyrir jól og nú erum við komin nálægt páskum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)