150. löggjafarþing — 65. fundur,  3. mars 2020.

svör við fyrirspurnum.

[14:32]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Af þessu tilefni, í umræðu um sein svör við fyrirspurnum, hlýt ég að nefna nokkrar fyrirspurnir sem ég hef leyft mér að leggja fram og mér þykir hafa orðið nokkur dráttur á svörum við. Síðar í þessum mánuði er komið hálft ár frá því að ég lagði fram fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra um skuldbindingu íslenska ríkisins um að réttilega innleiddar EES-gerðir hafi forgangsáhrif í íslenskum rétti. Þessi fyrirspurn tengist áminningarbréfi Eftirlitsstofnunar EFTA frá því í desember 2017. Þetta er ekki nýtt mál en ekkert svar kemur þó að liðnir séu nærri sex mánuðir.

Sömuleiðis leyfi ég mér að nefna aðra fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra sem lýtur að athugasemdum ráðuneytis sem gerðar voru við (Forseti hringir.) a.m.k. eina lögfræðilega álitsgerð sem lá hér fyrir þegar við ræddum þriðja orkupakkann. Ég leyfi mér að nota þetta tækifæri, hæstv. forseti, og hvetja til þess að hæstv. forseti neyti þeirra ráða sem hann hefur til að ýta á eftir því að fyrirspurnum þingmanna sé svarað.