150. löggjafarþing — 68. fundur,  3. mars 2020.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[15:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Sú sem hér stendur telur sig ekki vera að fara fram með mál sem brýtur gegn stjórnarskránni. Það kom alla vega fram í nefndinni að skilningurinn er ekki sá að svo sé. Málið hefði enda væntanlega tekið öðrum breytingum ef þær upplýsingar sem þar komu fram hefðu gefið tilefni til þess skilnings að mati þeirra sem komu fyrir nefndina, og við þurfum að muna að þeir voru fleiri en bara eigendur sjávarjarða.

Í þeim hæstaréttardómi sem m.a. er verið að vitna í er bent á, þegar verið er að tala um fjarlægð frá stórstraumsfjöruborði og vitna í rekabálk Jónsbókar, um afmörkun netlaga og sjávardýpið, að það hafi ekki verið fellt úr gildi. En það er líka bent á að það hefur ekki verið tekið upp í neinni löggjöf frá 1919. Við getum því eflaust lengi togast á um túlkun á Jónsbók, geri ég ráð fyrir.