150. löggjafarþing — 68. fundur,  3. mars 2020.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[15:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þegar eins stórt mál og þjóðlendur er tekið fyrir er hægt að eiga langar stundir og miklar umræður vegna þess að það er eitthvað sem er heitt í þjóðarsálinni, landið okkar og náttúran. Ég tek undir það að þegar frumvarpið var lagt fram á sínum tíma og samþykkt, þrátt fyrir þær heitu tilfinningar sem birtust í því á þeim tíma, hafi það verið mikið framfaraskref að þetta sé sameign þjóðarinnar, þau verðmæti sem felast í þeim þjóðlendum sem við höfum nú þegar lýst yfir. Ég held að þetta skipti máli langt fram í tímann.

Við tókum ekkert sérstaklega djúpa umræðu um eðli þjóðlendna að þessu sinni. Varðandi fyrirkomulagið, eins og ég fór aðeins inn á í síðasta andsvari, fylgja því kostir og gallar að breyta lögum og lögin um opinber fjármál gera það að verkum að þetta er eitt af því sem þarf að breyta. Hvort við viljum breyta lögunum um opinber fjármál til að m.a. þetta geti verið með öðrum hætti er svo kannski önnur umræða. En þetta er eitt af því sem við tökum til umræðu aftur og förum örlítið betur ofan í.

Þó að ríkið fái til sín þessar tekjur eru bæði innviða- og skipulagsáætlanir í því fólgnar í ljósi þeirra áforma sem nú þegar eru uppi varðandi þjóðlendurnar og hálendið. Ég held að okkur sé það öllum ljóst að við getum með þeim hætti sem hér er lagt til, þó að fjármunirnir fari í ríkissjóð, að sjálfsögðu sinnt því verkefni sem áður var á höndum sveitarfélaga eða landeigenda eftir því hvernig það var.