150. löggjafarþing — 68. fundur,  3. mars 2020.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[15:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Fram kom í máli forsætisráðherra fyrr í umræðu um málið, m.a. um hlutverk ríkisins sem landeiganda, þjóðlendueiganda, að henni þætti það mjög mikilvægt að ríkið gæfi út eigendastefnu fyrir þjóðlendur. Ég held að það sé alveg hægt að taka undir það.

Ég er ekki sammála hv. þingmanni um að hér sé fortakslaust verið að skerða rétt þeirra sem nú þegar hafa gert kröfur. Það kom fram hjá nefndinni að ekki væri verið að tala um mál sem dómar hafa fallið í eða annað slíkt sem ætti að rýra rétt þeirra sem hefðu farið í gegnum allt það ferli áður. Það væri ekki meiningin að þau mál yrðu tekin upp og mér finnst það mjög ágætlega skýrt í frumvarpinu og það er áréttað í nefndaráliti okkar. Það er alls ekki verið að stefna að því að taka upp mál nema ný gögn komi fram eða eitthvað, að ekki sé lokað á það um aldur og ævi. Það getur verið í báðar áttir.