150. löggjafarþing — 68. fundur,  3. mars 2020.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[15:35]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar sem er undirritað af hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, þingmanni Miðflokksins og fulltrúa Miðflokksins í allsherjar- og menntamálanefnd sem stendur einn að þessu nefndaráliti.

Það er skemmst frá því að segja að við meðferð frumvarpsins kom fram mikil gagnrýni á 5. gr. þess sem fjallar um fyrirhugaða meðferð óbyggðanefndar á landsvæðum utan strandlengju meginlandsins. Umsagnaraðilar gerðu sérstaklega athugasemdir við áhrif 5. gr. á hagsmuni eigenda sjávarjarða vegna skilgreiningar í greinargerð frumvarpsins á hugtakinu netlög. Minni hlutinn tekur undir framangreinda gagnrýni og telur að miða ætti við ákvæði 2. kapítula rekabálks Jónsbókar þar sem netlög eru miðuð við dýptarreglu. Minni hlutinn leggur áherslu á að leitast sé í hvívetna við að virða eignarrétt landeigenda.

Í frumvarpinu er lagt til að fella brott 3. málslið 4. mgr. 3. gr. laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta þar sem fram kemur að tekjum af leyfum vegna nýtingar þjóðlendna skuli varið til hliðstæðra verkefna innan þjóðlendna. Minni hlutinn telur að skoða þurfi betur sjónarmið sem fram komu í umsögn um málið þess efnis að með breytingunni sé ekki eingöngu verið að leggja til breytingu á gjaldtöku heldur á eignarformi þjóðlendna. Breytingin leiði til þess að sérstaða þjóðlendna meðal eigna ríkisins verði minni en áður. Minni hlutinn telur að skoða verði gaumgæfilega hvort tilefni sé til að breyta eignarformi þjóðlendna með þessum hætti og lýsir strax verulegum efasemdum um slík sjónarmið.

Þá tekur minni hlutinn undir með Landssamtökum landeigenda á Íslandi sem benda í umsögn sinni á að þær breytingar sem frumvarpið leggur til séu að meginstefnu til óþarfar og fyrst og fremst til þess fallnar að auka umsvif ríkisins á kostnað eignarréttar landeigenda. Þetta felst m.a. í því að með frumvarpinu er lagt til að ríkið fái heimildir til að auka við kröfur sínar jafnframt sem óbyggðanefnd verði heimilt að taka til meðferðar svæði sem áður hafa sætt meðferð hennar að vissum skilyrðum uppfylltum. Í umsögn samtakanna kemur fram að slíkar breytingar séu til þess fallnar að viðhalda óöryggi landeigenda gagnvart ríkinu og skerða það traust sem þó hafi myndast milli ríkisins og landeigenda á þeim svæðum sem tekin hafa verið til meðferðar óbyggðanefndar. Minni hlutinn tekur undir með Landssamtökum landeigenda og telur að miklir hagsmunir séu fólgnir í því að viðhalda friði og sátt milli ríkis og landeigenda.

Að lokum áréttar minni hlutinn að eignarrétturinn er friðhelgur samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar og að virða verði eignarrétt landeigenda eftir fremsta megni.

Með hliðsjón af framangreindu getur minni hlutinn ekki stutt að frumvarpið nái fram að ganga.

Undir álitið ritar hv. þm. Miðflokksins, Anna Kolbrún Árnadóttir, fulltrúi í allsherjar- og menntamálanefnd.

Í málinu eru umsagnir margar og margir umsagnaraðilar voru kallaðir fyrir nefndina. Mig langar að vekja sérstaklega athygli á nokkrum atriðum í umsögnum og langar mig fyrst að koma inn á gagnrýni á 5. gr. og grípa niður í þremur umsögnum sem bárust til nefndarinnar. Fyrst vil ég nefna umsögn Bjarna M. Jónssonar sem er eigandi sjávarjarðar og er sérfræðingur í haf- og strandsvæðastjórnun. Í umsögn hans segir, með leyfi forseta:

„Í raun er 5. gr. óþörf og mikið auðveldara væri að fylgja gildandi lögum þar sem fram kemur að landamerki sjávarjarða eru dýptarviðmið samkvæmt Jónsbókarlögum sem er 4 faðmar eða 6,88 metrar út frá meginlandi, hólmum, skerjum, dröngum og steinum, sem upp úr sjó rísa á stórstraumsfjöru. Að öllum líkindum er netlagaskilgreining Jónsbókar besta, einfaldasta og eðlilegasta skilgreining á landamerkjum jarða sem óbyggðanefnd hefur fengist við hingað til þar sem hún er alls staðar sú sama hringinn í kringum landið. Seinni tíma lög sem miða við fjarlægðarregluna 60 faðma eða í dag 115 metra frá stórstraumsfjöruborði mega vera þarna en alltaf hlýtur það sem lengra nær að ráða því hvað gert er innan svæðisins, þ.e. menn geta ekki leyft námuvinnslu utan 115 metra netlaga en innan dýptarviðmiðis netlaga ef það nær lengra út.“

Til að klára sjónarmið sem koma fram í umsögn Bjarna M. Jónssonar þá heldur hann áfram og segir, með leyfi forseta:

„Greinargerðin sem síðar verður notuð til lögskýringa er görótt. Þarna eru talin upp nokkur lög þar sem netlög eru skilgreind 115 metrar út frá stórstraumsfjöruborði. Það vekur upp spurningar að elstu og helstu lögunum sé sleppt úr greinargerðinni en það eru Jónsbókarlögin frá 1281 sem enn eru í fullu gildi en þau gilda m.a. um aðalhagsmunamálið eða fiskveiðar. Áhyggjur höfunda greinargerðarinnar um að það sé mikil vinna að eiga við þetta gef ég ekki mikið fyrir því þetta liggur allt á borðinu nú þegar bundið í lög.“

Til viðbótar við þetta vil ég vekja sérstaklega athygli á umsögn Björns Samúelssonar sem er eigandi jarðarinnar Höllustaða í Reykhólahreppi. Hann segir, með leyfi forseta:

„[E]r því harðlega mótmælt að læða eigi þessari breytingu inn með óljósum upplýsingum sem ekki koma fram í frumvarpsdrögunum sjálfum, heldur einungis í skýringunum með frumvarpinu sem eru svo þvælnar og erfiðar yfirlestrar að flestir gefast upp á lestrinum sem kannski er ætlunin. Hér er í undirbúningi bótalaus eignaupptaka af hálfu ríkisins sem kemur sérlega illa við landeigendur sjávarjarða, sérstaklega í og við Breiðafjörð, þar sem munur á flóði og fjöru getur nálgast 6 metra þegar stórstreymt er og mælt frá þeirri fjöru út á 6,88 metra dýpi. Ef þið viljið eignast hafsvæðið hvers vegna þá ekki bara að kaupa það í stað þess að reyna að stela því á þennan auvirðilega hátt?“

Þetta segir Björn Samúelsson í umsögn sinni. Fyrir áhugasama vísar Björn í álit Skúla Magnússonar, lektors við lagadeild Háskóla Íslands, sem hann vann í september árið 2001 að beiðni nefndar um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða, um stjórnskipulega vernd fiskveiðiréttar sjávarjarða. Niðurstaða Skúla Magnússonar í því tilviki er að afmarka beri netlög sjávarjarða með hliðsjón af fiskveiðirétti samkvæmt reglu 2. kapítula rekabálks Jónsbókar.

Þriðja atriðið sem mig langar til að vekja sérstaklega athygli á í þessu samhengi er umsögn Erlu Friðriksdóttur sem er eigandi sjávarjarða á Breiðafirði. Þar segir, með leyfi forseta:

„Undirrituð gerir athugasemd við að í greinargerð um einstakar greinar frumvarpsins, 5. gr., er látið hjá líða að fylgja gildandi lögum um að landamerki sjávarjarða eru dýptarviðmið samkvæmt Jónsbókarlögum sem er 4 faðmar eða 6,88 metrar út frá meginlandi, hólmum, skerjum, dröngum og steinum, sem upp úr sjó rísa á stórstraumsfjöru.“ — Þetta er sambærilegt við umsögn Bjarna M. Jónssonar.

Áfram heldur umsögn Erlu Friðriksdóttur, með leyfi forseta:

„Aðeins er getið um fjarlægðarregluna þar sem netlög eru skilgreind 115 metrar út frá stórstraumsfjöruborði.“

Um þetta atriði frumvarpsins, sem sagt 5. gr., er það að segja að þarna hræða sporin. Fram hefur komið, bæði hjá framsögumanni meirihlutaálits og fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í nefndinni, hv. þm. Birgi Ármannssyni, að ætlunin sé að kalla málið inn til nefndar á milli umræðna og fara sérstaklega ofan í m.a. þetta efnisatriði. Ef ég tók rétt eftir er búið að tilkynna sérstaklega að fyrir nefndina verði kallaðir á milli umræðna fulltrúar óbyggðanefndar og eigendur sjávarjarða og að líkindum á þeim eftir að fjölga. En upp kemur spurningin: Af hverju voru þessi atriði ekki skoðuð ítarlegar áður en málið kom til 2. umr.? Athugasemdir virðast vera það miklar og alvarlegar að það hefði verið fullkomlega eðlilegt að vinna málið með ítarlegri hætti í nefndinni áður en það kom hingað inn.

Næst langar mig til að vekja sérstaklega athygli á umsögn sem barst til nefndarinnar og snýr að öðru efnisatriði sem ég kom inn á í nefndaráliti minni hlutans, fulltrúa Miðflokksins. Það er umsögn frá Víði Smára Petersen hæstaréttarlögmanni. Það snýr að því atriði sem hv. þm. Sigríður Andersen kom inn á fyrr í umræðunni varðandi skilgreiningu þjóðlendna og hvort horft sé til þess að breyta nálgun þar. Ég ætla að leyfa mér að vitna í umsögn Víðis Smára Petersens, með leyfi forseta, þar sem hann vísar í núgildandi lög, þar sem segir:

„Tekjum af leyfum til nýtingar lands skv. 2. mgr. skal varið til landbóta, umsjónar, eftirlits og sambærilegra verkefna innan þjóðlendna, eftir nánari ákvörðun ráðherra.“

Áfram heldur Víðir Smári Petersen, með leyfi forseta:

„[E]r breytingin rökstudd á þá leið að með henni sé verið að fella úr lögunum markaðan tekjustofn í samræmi við þá meginreglu laga um opinber fjármál að ekki séu markaðir tekjustofnar í einstökum lögum.“

Áfram segir í umsögninni:

„Tilgangurinn með ákvæðinu er ekki sá að búa til markaðan tekjustofn, heldur að tryggja þjóðlendum ákveðna sérstöðu umfram aðrar eignir ríkisins. Þannig sagði eftirfarandi í frumvarpi því er varð að lögum nr. 58/1998:

„Í þessu frumvarpi [að lögum nr. 58/1998] er á því byggt að ekki beri að fara með þjóðlendur eins og hefðbundnar eignir ríkisins, svo sem einstakar lóðir eða jarðir, heldur fari ríkið í þessu tilviki með varðveislu og forræði sameiginlegra gæða þjóðarinnar, þó svo að taka verði tillit til hagsmuna þeirra sem þegar hafa áunnið sér réttindi til nytja innan þeirra. Af þessu leiðir að lagt er til að tekjum sem kunna að falla til vegna gjalda (leigu) fyrir afnot lands og landsgæða innan þjóðlendu verði varið sérstaklega í þágu verkefna innan þjóðlendna, en renni ekki í ríkissjóð eða einstaka sveitarsjóði. Þjóðlendur fá með þessu sérstöðu sem um margt svipar til sjálfseignarstofnana. Er þar enn höfð í huga hin sögulega sérstaða þessara landsvæða.““

Ég verð að lýsa furðu minni á því að ekki sé tekið á þessu efnisatriði með ígrundaðri hætti áður en málið kemur inn til 2. umr. Það blasir við að hugsunin á bak við þessa útfærslu í lögunum frá 1998 er ekki á þann máta að hér sé um að ræða hefðbundinn markaðan tekjustofn, eins og margir þeirra sem aflagðir hafa verið í tengslum við innleiðingu nýrra laga um opinber fjármál. Víðir Smári Petersen lögmaður kom fyrir nefndina og það að umsagnaraðilinn hafi komið fyrir nefndina hlýtur að þýða að á þessu stigi málsins líti nefndin svo á að sjónarmið umsagnaraðilans séu ekki þeirrar gerðar að ástæða sé til að taka tillit til þeirra og við það vil ég gera miklar athugasemdir á þessum tímapunkti.

Þriðja atriðið sem mig langaði til að koma stuttlega inn á eru athugasemdir í umsögn Landssamtaka landeigenda á Íslandi um frumvarp til þeirra laga sem hér er fjallað um. Umsögnin byrjar með þessum hætti, með leyfi forseta:

„Landssamtökin telja þær breytingar sem lagðar eru til að stærstum hluta óþarfar og að tillögurnar hafi verið unnar fyrst og fremst í þeim pólitíska tilgangi að leitast við að auka völd og yfirráð opinbers valds, þ.e. ríkis og sveitarfélaga, á kostnað eignarréttar landeigenda.“

Í umsögnunum sem liggja fyrir um þetta mál er alltumlykjandi þessi sókn ríkisins, sem oft hefur verið kölluð árásir í gegnum allan þann árafjölda sem þjóðlendumál hafa verið til meðferðar á grundvelli laganna frá 1998. Þessari nálgun hins opinbera hefur stundum verið líkt við plöntuna í Litlu hryllingsbúðinni sem fær aldrei nóg. Nú er gengið svo langt að ætlunin virðist vera sú að óbyggðanefnd fái að taka upp mál sem þegar hafa verið að mati manna leidd til lykta. Ég verð við þetta tækifæri að gera athugasemd við það að skilið verði við það atriði á þeim nótum sem nú liggur og að það verði skoðað sérstaklega þegar málið fer til nefndar á milli 2. og 3. umr.

Þessu til viðbótar er æðimargt sem ástæða er til að skoða sérstaklega. Mig langar í lokin að benda á eitt í nefndaráliti meiri hlutans, í kaflanum um málsmeðferð óbyggðanefndar, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið þess efnis að ákvæði 4. gr. frumvarpsins, þar sem lagt er til að ríkið hafi heimild til að auka við kröfur sínar, væru óheppileg og drægju úr jafnræði málsaðila. Jafnframt væri landeigendum sem hefðu nú þegar verið með land til meðferðar hjá óbyggðanefnd raun að þurfa ganga í gegnum slíkt mál á nýjan leik. Með greininni er lagt til að auka möguleika ríkisins til að auka við kröfur sínar undir rekstri mála fyrir óbyggðanefnd og að lögfest verði heimild fyrir nefndina til að taka til meðferðar svæði sem áður hafa sætt meðferð nefndarinnar.“

Ég skora á hv. allsherjar- og menntamálanefnd að stíga nokkur skref til baka þarna, reyna að nálgast málið með þeim hætti að forsvaranlegt sé gagnvart landeigendum og herða ekki enn á þeim miklu kröfum sem miðað hefur verið við í rekstri þjóðlendumála á fyrri stigum. Það er auðvitað öllum ljóst, eins og kemur fram í niðurlagi nefndarálits meiri hlutans, að sjónarmið eru mjög skipt í þessum efnum. Það er mikil gagnrýni á 5. gr. þar sem landeigendur vísa til Jónsbókarákvæða hvað dýptarviðmið varðar í stað þess að eingöngu sé horft á lengdarviðmið.

Að endingu vil ég segja að ég tel algjörlega nauðsynlegt og gott að heyra að þegar hefur verið ákveðið að kalla málið inn á milli umræðna. Um leið vil ég leyfa mér að gagnrýna að þetta hafi ekki verið unnið dýpra, ef svo má segja, og tekið tillit til sjónarmiða landeigenda í meira mæli en raunin virðist vera. Ég vona að þegar málið kemur inn til 3. umr., ef ekki fer svo vel að það sofni í nefnd, verði búið að taka tillit til þessara þátta því að við verðum að bera gæfu til þess að standa vörð um eignarrétt eigenda sjávarjarða í þessu tilviki, og auðvitað hvar sem hann kann að vera, með þeim hætti sem eðlilegt er. Okkur verður á einhverjum tímapunkti að takast að hætta að líta á það sem sjálfsagðan hlut að ríkisvaldið hagi sér eins og plantan í Litlu hryllingsbúðinni.