150. löggjafarþing — 68. fundur,  3. mars 2020.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[15:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Í tilefni af ræðu hv. þm. Bergþórs Ólasonar vildi ég ítreka það sem áður hefur komið fram að fullur vilji stendur til þess af hálfu allrar nefndarinnar, bæði meiri hluta og minni hluta, að taka málið aftur inn á milli umræðna til að fara yfir ákveðin álitamál sem komið hafa fram í umræðunni. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að það er mikilvægt að ekki sé verið að róta upp nýjum álitamálum vegna mála sem þegar hafa gengið sinn gang og fengið niðurstöðu. Víða um land er að komast á þokkaleg ró eftir töluvert umrót sem fylgdi vinnu óbyggðanefndar og úrskurðum sem varða þjóðlendur á síðustu 20 árum eða svo og það er ekki ætlun meiri hluta þessarar nefndar að efna til ófriðar eða stuðla að því að efnt verði til ófriðar að þessu leyti áfram. Þess vegna er auðvitað mikilvægt að fá fram sjónarmið í þessari umræðu og nefndin hefur síðan tekið það á sig að fara í gegnum það milli 2. og 3. umr. hvaða athugasemdir eru réttmætar og hverjar eru hugsanlega þess eðlis að þær byggi á óþarflega mikilli tortryggni. Ég held engu að síður að það sé gagnlegt fyrir okkur að fá þau sjónarmið fram sem hér koma til umræðu. En ég ítreka það sem ég sagði hér áðan að það er ekki ætlunin af hálfu meiri hlutans í allsherjar- og menntamálanefnd að stuðla að ófriði að þessu leyti og það er heldur ekki ætlunin að skerða eignarréttindi sem varin eru af lögum og stjórnarskrá.