150. löggjafarþing — 68. fundur,  3. mars 2020.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[15:56]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í sjálfu sér er það ekki neitt sem ég ætla að bregðast við í andsvari hv. þm. Birgis Ármannssonar annað en að fagna því að nefndin, ég leyfi mér að segja strax á þessum tímapunkti, nálgist málið með þeim hætti að það verði tekið, að því er virðist, til raunverulegrar efnislegrar meðferðar aftur á milli umræðna. Stundum er það þannig að efnisleg umræða verður mjög takmörkuð og hv. þingmenn upplifa að mál séu kölluð inn til nefndar til málamynda frekar en annað. En ég ítreka að ég er ánægður að heyra þann tón sem kom fram í máli hv. þm. Birgis Ármannssonar. Við verðum að einsetja okkur í þessu máli að virða þau eignarréttindi sem til staðar eru samkvæmt stjórnarskrá og stíga helst eitt til tvö skref til baka hvað ásælni hins opinbera varðar í eignarlönd bænda.