150. löggjafarþing — 68. fundur,  3. mars 2020.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[16:13]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Því er fljótt til svarað, hv. þingmaður. Ég tel þessi málaferli sem ríkisvaldið hefur lagt í og staðið fyrir í meira en 20 ár séu hvorki landeigendum né bændum til hagsbóta. Þvert á móti hefur þetta skapað bændum á lögbýlum ómældar áhyggjur og kostnað sem enn sér ekki fyrir endann á. Ég minni á, eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, að því var trúað af hálfu bænda að þetta væri einungis til að skýra nauðsynlega óvissu o.s.frv. og bændur þyrftu ekki að hafa nokkrar áhyggjur af kostnaði hvað þetta varðar vegna þess að þeir kæmu til með að fá það allt saman endurgreitt. Þvert á móti var ekkert staðið við það. Fjölmargir bændur hafa þurft að leggja út í ómældan kostnað vegna málaferla ríkisins og hafa ekki fengið það endurbætt. Það er nauðsynlegt að skerpa á því, og nefndin ætti að taka það sérstaklega til athugunar hvort ekki væri rétt að ríkisvaldið kæmi þar inn og greiddi bændum til baka þann kostnað eins og þeim var lofað í upphafi en ekki hefur verið staðið við. Ég held að rétt sé að halda þessu til haga.

Auk þess er með frumvarpinu verið að opna fyrir það að ríkisvaldið geti haldið áfram að vinna í þessum málum þó svo að niðurstaðan sé komin. Menn hafa getað treyst því að þegar þessum málum væri lokið þyrftu þeir ekki að hafa áhyggjur af því að ríkisvaldið myndi halda áfram og koma með nýja kröfugerð og finna einhverjar glufur sem mögulega gætu orðið til þess að halda málaferlum áfram. Það er það sem frumvarpið gengur út á og það finnst mér vera hrein og bein aðför að landeigendum og bændum á lögbýlum í landinu.