150. löggjafarþing — 68. fundur,  3. mars 2020.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[16:20]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla að koma hingað upp og mæla nokkur orð í framhaldi af framsögu nefndarálits um frumvarpið um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda. Mér finnst umræðan hafa verið mjög fín og hún hefur svolítið róað hug minn, líka að málið verður tekið til nefndar á milli umræðna og fjallað verður meira um það, og eins og kom fram í andsvörum, m.a. hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni, væri stefnan sú að málið fengi réttláta og rólega lúkningu.

Það sem stakk mig í augun við lestur þessa máls snýr helst að sjávarjörðum, eyjum og skerjum og það sem fram kom í framsögu nefndarálits hjá hv. þm. Bergþóri Ólasyni um minnihlutaálit allsherjar- og menntamálanefndar, sem hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir skrifar undir, og ætla ég ekki að endurtaka það. Þær áhyggjur sem maður sér í umsögnunum eru að mínu áliti allar réttmætar. Það vekur furðu hjá mér að málið skuli vera komið á þennan stað miðað við þær umsagnir.

Talað hefur verður um Jónsbók og gagnrýni hefur komið fram á 5. gr. að ekki hafi verið vitnað í þau ágætu lög sem eru síðan 1281 og eru alltaf við lýði, þó að það hafi komið fram, að mér heyrðist í máli hv. þm. Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, að ekkert hefði verið tekið upp síðan 1919, ég veit ekkert um það, en þau lög eru í gildi og hafa nýst prýðilega þar sem þau eiga við.

Mig langar aðeins að vitna í texta í einni umsögn sem ég er með hér í símanum. Þar er getið um fjarlægðarregluna þar sem netlög eru skilgreind 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði. Stærð netlaga skiptir miklu máli í þessu sambandi en þar er um tvær skilgreiningar að ræða, dýptarviðmið og fjarlægðarreglu sem báðar miða við stórstraumsfjöru. Lögin um dýptarviðmiðið gefa í flestum tilfellum mun stærra hafsvæði en fjarlægðarreglan og gilda um allt sem tengist fiskveiðum á umræddu svæði en einnig þaratekju. Það eru því miklir eignaréttarlegir hagsmunir í húfi.

Þetta á sérstaklega við í Breiðafirði þar sem þetta tvennt gildir í raun og veru eftir því hvar maður er staddur í firðinum. 115 metrar frá stórstraumsfjöru henta í raun mjög vel þar sem frekar er aðdjúpt en á austan- og norðanverðum Breiðafirði er mjög grunnt og þá eru þessi gömlu lög úr Jónsbók um dýptarregluna, fjórir faðmar, eða um 6,8 metrar, góðra gjalda verð vegna þess að þar er mikið grunnsævi langt frá eyjum, eða lengra út sem sagt, og þá kemur það vel út. Það er einkennilegt að ekki skuli vera minnst á þetta í greinargerðinni og vona ég að það verði lagað á milli umræðna.

Í greinargerðinni, um einstakar greinar frumvarpsins, um 5. gr., kemur fram að hátt í 11.000 eyjar og sker við strendur Íslands hafi verið teiknuð inn í kortagrunna en einungis lítill hluti þeirra beri nafn. Send var inn umsögn og gerð athugasemd við þetta, enda bera flestallar eyjar og sker nafn, ef ekki allar, og ég verð að taka undir það. Ég þekki ansi vel til í Breiðafirði og þótt ég viti kannski ekki alveg hvað eyjarnar og skerin eru mörg eru til einhverjar tölur yfir það. Og þá bera allar eyjar og hólmar nöfn, allt sem gras er á og öll sker sem ég veit um. Ég veit ekki til þess að neitt sker beri ekki nafn. Mér finnst því svolítið skrýtið að sjá þennan texta, að það sé sagt að lítill hluti af þessu beri nöfn. Meira að segja bera sker eða boðar nöfn sem koma ekki upp úr sjó á stórstraumsfjöru, svo það sé sagt. Mér fyndist að það þyrfti líka að koma fram í frekari vinnu.

Þetta er það sem ég myndi vilja árétta. Það hefur komið fram, eins og ég sagði áðan, í fyrri ræðum og framsögu, að ræðumenn hafa áhyggjur af því að ekki skuli hafa verið gerð betur grein fyrir þessu og betur unnið í málinu áður en það kom til þessarar umræðu.

Það er ekki inni í þessu máli en mig langar að nefna það hér í restina, og hefur komið fram á fyrri stigum, í 2. umr. og ég hef spurt sjávarútvegsráðherra út í, en það er um gjöld af þangslætti. Það tengist þessum landamerkjamálum. Það er sem sagt tekið aflagjald eða auðlindagjald af slætti klóþangs og það er í huga allra þeirra sem eiga eyjar og jarðir að sjó og nýta þetta ósanngjarnt. Þau líkja því algerlega við það að þau þyrftu þá að borga auðlindagjald af því að slá grasið á eyjunni líka. Mig langar til að nefna þetta til hliðar við málið til að vekja máls á því að þetta er frekar ósanngjarnt en það jaðrar við að vera brot á eignarrétti því að það sem kemur upp úr sjó á einhver og þá er furðulegt að viðkomandi þurfi að borga auðlindagjald af því að nýta það.

Að öðru leyti ætla ég ekki að hafa þetta lengra og vona að nefndin vinni úr þeim ávirðingum sem hafa komið fram í ræðum og umsögnum og mun ég fylgjast með því framvegis.