150. löggjafarþing — 68. fundur,  3. mars 2020.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[16:30]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að taka þátt í þessari umræðu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, eins og það heitir.

Það eru nokkur atriði sem ég vildi minnast á. Í fyrsta lagi eru nokkur markmið talin upp í greinargerð með frumvarpinu og ég ætla aðeins að fara yfir þau til að byrja með. Það er fyrst varðandi fyrirhuguð starfslok óbyggðanefndar, að verið sé að setja þessi lög til að laga málsmeðferðina og gera hana þægilegri eða skilvirkari til að áætluð starfslok óbyggðanefndar geti staðist. Um þetta vil ég segja: Ég man þá tíð, herra forseti, þegar óbyggðanefnd var stofnuð og það er orðið æðilangt síðan. (Gripið fram í: Þú ert líka fullorðinn.) Ég held að það séu orðin 22 ár. Og ég man meira, herra forseti. Ég man eftir því hvað sagt var á þeim tíma vegna þess að þá var talið að óbyggðanefnd myndi ljúka störfum á tíu árum, ég held að talað hafi verið um sex eða átta ár, að hún ætti að ljúka störfum árið 2007 í síðasta lagi. Síðan eru 13 ár og enn hefur hún ekki lokið störfum og nú er áætlað að hún ljúki störfum eftir fjögur ár. Og hvað er þetta, herra forseti, búið að kosta þjóðina? Þetta er vissulega ágætur kaupauki fyrir þá lögmenn og lögfræðinga sem hafa starfað við þetta hringinn í kringum borðið, þ.e. sækjendur fyrir hönd ríkisins, verjendur fyrir hönd bænda og dómendur fyrir hönd hins opinbera. Hvað er þetta búið að kosta? Það væri gaman að fá tölur yfir það. Kannski eru þær til, ég hef ekki séð þær, en þetta eru hundruð milljóna og örugglega miklu meira en það. Þetta eru án nokkurs vafa milljarðar, herra forseti, á 22 árum í þessari starfsemi.

Það var þannig í sveitinni í gamla daga að ef menn rifust um einhverja litla spildu, sem menn gerðu iðulega, þá keypti bóndinn sem nennti ekki að standa í slíku þrasi árum saman, með tilheyrandi kostnaði, landið sem þrætt var um. Það var kannski miklu ódýrara að kaupa landið og spara sér málskostnaðinn, spara sér tímann, spara sér fyrirhöfnina og spara sér leiðindin. En ríkisvaldið hefur ákveðið að fara í þessa vegferð fyrir löngu og þeirri vegferð er ekki lokið en nú er áætlað að ljúka henni á fjórum árum. Ég vona vissulega að það takist, en þetta er óheyrilega dýrt og án mikils þjóðhagslegs ávinnings. Hver er þjóðhagslegi ávinningurinn af því að landamerki eru komin þarna á einhvers staðar milli eignarlanda og þjóðlendna?

Ég sé líka í frumvarpinu að eitthvað hefur orðið þarna eftir vegna þess að gert er ráð fyrir því að bændur og ríkið, sérstaklega ríkið, fái aukna heimild til að taka upp eldri mál þar sem láðst hefur að gera kröfur og hugsanlega séu þarna einhverjar landræmur eigendalausar eða a.m.k. ekki búið að úrskurða um þær svo að fullnægjandi sé talið. Eitt af markmiðunum í frumvarpinu er að stoppa upp í þessi göt og gefa ríkinu heimild til að taka þessi mál upp að nýju sem kostar málaferli og varnir af hálfu þeirra sem hugsanlega telja til réttar yfir því sama landi. Þetta var einn anginn af því sem ég ætlaði að ræða.

Ég ætlaði auðvitað einnig að tala um þau landsvæði sem ríkið ætlar að fara að vinna í og heimila — það er kannski ekki fullljóst hvort það hafi ekki löngu verið búið að því, sýnist mér — að óbyggðanefnd taki þau mál til umfjöllunar sem snúa að því að marka eignarrétt í tengslum við landsvæði utan strandlengju meginlandsins, eins og það er orðað, og svo almenninga stöðuvatna.

Þar hitta menn fyrir landeigendur sem telja gengið á rétt sinn og menn standa í ágreiningi út af skilningi á eignarrétti, hversu víðtækur hann sé t.d. í netlögum og hver netlögin eru yfirleitt.

Einhverra hluta vegna, herra forseti, hefur Alþingi, eða þeir sem útbúa lagasafnið, ákveðið að taka út gömul ákvæði sem mér þykir afskaplega vænt um. Ef þau eru ekki hreinlega felld úr gildi með lögum finnst mér ástæðulaust að þau séu hrifsuð úr lagasafninu án aðkomu Alþingis, eins og mér skilst og sýnist vera varðandi einhver ákvæði hér, bæði í Jónsbók og Grágás. Mér er sérstaklega annt um ákvæði Grágásar, að ekki sé verið að henda út ákvæðum sem ekki er búið að fella úr gildi. Þar á ég við landbrigðaþátt Grágásar, Staðarhólsbók, þar sem segir:

„Þar eru netlög utast í sæ er selnet stendur grunn, tuttugu möskva djúpt, af landi eða af skeri og komi flár upp úr sjónum að fjöru þá er þinur stendur grunn.“

Þetta finnst ekki, ég leitaði að þessu áðan, í lagasafninu, ekki í tölvulagasafninu en virðist eins og það hafi samt ekki verið fellt úr gildi, og sakna ég þess. Einnig er um að ræða fleiri ákvæði eins og úr Jónsbók þar sem mjög svipað ákvæði virðist hafa verið tekið út án sjáanlegra skýringa, herra forseti. Þar er talað um „20 möskva djúpt selnet“ sem við lesum ítrekað í umsögnum um frumvarpið frá eigendum sjávarjarða og landeigendum en þeir telja að miða eigi við dýptarviðmið þessara ákvæða Grágásar og Jónsbókar, enda hafi það ekki verið fellt úr lögum og meira að segja 1849, þegar veiðitilskipunin er sett, hafi sérstaklega verið tekið fram, í 21. gr. þeirrar tilskipunar, að um veiði þar ættu við eldri ákvæði, þ.e. úr Grágás og Jónsbók sem nú er ekki að finna og ekki heldur 21. gr. tilskipunarinnar. Sporin eru afmáð og það er leitt vegna þess að á venjulegu mannamáli er munur á því hvort menn taka þennan venjulega skilning á netlögum, þ.e. 60 faðma eða 115 metra, sem finna má víðs vegar í lögum, eða dýptarviðmið, sem ég var að nefna, sem er þá einhvers staðar í kringum 7 metra dýpi sem er oft mun lengra út frá fjöru en ella og munar miklu, sérstaklega í grunnum fjörðum eins og á Breiðafirði og fyrir botni margra fjarða.

Herra forseti. Það skiptir máli að talað sé fyrir þessu, að bent sé á þetta og að ríkið gangi ekki með offorsi á rétt landeigenda og margir hafa minnst á það hér áður. Ég þarf ekki að nefna stjórnarskrárákvæðið sem verndar eignarréttinn, menn eiga auðvitað ekki að ganga á eignarrétt manna. Að áliti margra landeiganda var gengið fram af hálfu ríkisins af mikilli óbilgirni í þessum málum á árum áður. Fyrst eftir að óbyggðanefnd hóf störf voru ítrekuð blaðaskrif í fjölmiðlum þar sem ríkið var sakað um mikla óbilgirni í garð landeigenda í kröfugerð, gengið var mjög langt. Eftir margra missera deilur komst einhvers konar friður á hvað það varðaði. En ég vil vara við því í ræðustól Alþingis að ríkið gangi með slíkum hætti fram gegn þegnunum í því óljósa markmiði að leitast við að sölsa undir sig eignarrétt sem menn eiga kannski oft og tíðum erfitt með að færa sönnur á.

Það er annað sem ég vil vekja athygli á og það er almenningur stöðuvatna. Nú á að taka sérstaklega fyrir almenning stöðuvatna. Það er athyglisvert. Ætlar ríkið, herra forseti, að fara að gera kröfur á landeigendur um að það eigi einhvers konar rétt hvað varðar almenning stöðuvatna? Segjum að það sé stöðuvatn sem tveir eiga land að, hvor sínum megin, og það sé það breitt stöðuvatn að almenningur sé þar í miðjunni. Ætlar ríkið þá að gera kröfu um einhvers konar rétt þar, hvort sem um er að ræða námarétt eða veiðirétt eða einhvers konar vatnsréttindi eða eitthvað annað? Er það virkilega svo að við eigum að fara að horfa upp á það að ríkið fari að eyða stórfé, fyrirhöfn og kostnaði í að gera slíkar kröfur? Ég átta mig ekki alveg á því hvað verið er að fara með því að stofna hugsanlega til málaferla eða a.m.k. kröfugerðar varðandi almenning stöðuvatna. Yfirleitt er, held ég, öll strandlengja stöðuvatna háð eignarrétti nema kannski í þjóðlendunum sjálfum. Ég spyr: Hver er tilgangurinn þarna? Eru það þessi afréttarvötn þar sem bændur telja til veiðiréttar? Eru það þau sem menn eru að slægjast eftir og ætla þá að gera botninn og námaréttinn og allt hvað það heitir, nema hugsanlega einhvern veiðirétt, að eign ríkisins samkvæmt þessum lögum, þjóðlendulögum?

Að svo sögðu vil ég ítreka það sem ég hef sagt: Ég tel að ríkið eigi að fara varlega í þessum málum, ekki fara fram af óbilgirni gagnvart landeigendum og stilla kröfugerð sinni í hóf og leggja hana fram af hófsemd.