150. löggjafarþing — 68. fundur,  3. mars 2020.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[16:46]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar, sem ég áttaði mig hreinlega ekki fyllilega á. Ég áttaði mig þó á því hvað hann var að fara hvað varðar lög og hvenær þau eru talin fallin úr gildi. Það eina sem ég sagði í ræðustól áðan var að ég hefði ekki fundið þessi lög í lagasafninu í tölvunni. Ég spurði meira að segja að því í ræðustólnum hvort það gæti verið rétt að þau hefðu verið felld úr gildi hér, formlega, meinti ég að sjálfsögðu, eða hvort verið væri að breiða yfir þetta. Þau væru ekki birt lengur og hvar þau væru þá. Eru þau í gildi eða ekki? Ég var ekki búinn að leita meira og ég spurði hvort búið væri að fella þau formlega úr gildi, ég fyndi þau ekki. Það eina sem ég sagði varðaði bæði Grágásarákvæðið, sem ég nefndi sérstaklega, og þetta Jónsbókarákvæði. Ég vissi reyndar að 1. gr. veiðitilskipunarinnar hefði verið felld úr gildi. Það er nú skýring mín á þessu.