150. löggjafarþing — 68. fundur,  3. mars 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd.

330. mál
[16:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Páll Magnússon) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd, heimildir til rannsókna og framfylgdra. Álitið er frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.

Nefndin hefur í umfjöllun sinni um málið fengið á sinn fund Daða Ólafsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Heiðdísi Lilju Magnúsdóttur og Anton Emil Ingimarsson frá fjölmiðlanefnd, Ásthildi Lóu Þórsdóttur og Guðmund Ásgeirsson frá Hagsmunasamtökum heimilanna, Þórunni Önnu Árnadóttur og Matthildi Sveinsdóttur frá Neytendastofu, Ingu Dröfn Benediktsdóttur og Sigurð Guðmundsson frá Fjármálaeftirlitinu, Ingu Helgu Sveinsdóttur og Júlíu Þorvaldsdóttur frá Þjóðskrá Íslands, Eddu Símonardóttur og Sigríði Laufeyju Lúðvíksdóttur frá fyrirtækjaskrá og Þuríði Árnadóttur og Ýri Vésteinsdóttur frá Sýslumannafélagi Íslands.

Nefndinni bárust umsagnir frá Fjármálaeftirlitinu, fjölmiðlanefnd, Hagsmunasamtökum heimilanna, Neytendastofu og Persónuvernd.

Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á ýmsum lögum á sviði neytendaverndar vegna innleiðingar reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins, ESB, frá 12. desember 2017 um samvinnu milli landsyfirvalda sem bera ábyrgð á að framfylgja lögum um neytendavernd og um niðurfellingu reglugerðar nr. 2006/2004. Breytingarnar miða að því að tryggja að stjórnvöld sem fara með framkvæmd laga um neytendavernd sem reglugerðin tekur til hafi þær heimildir til rannsókna og framfylgdar sem 9. gr., samanber 10. gr. reglugerðarinnar, gerir kröfu um. Samhliða frumvarpi þessu var lagt fyrir Alþingi frumvarp þar sem gerð er tillaga um að reglugerðin verði sem slík tekin upp í íslenskan rétt með tilvísunaraðferð. Það er reyndar ranglega vísað í 330. mál í prentuðu nefndaráliti, það á að vera tilvísun í máli nr. 331. Ég reikna með að verði leiðrétt.

Með frumvarpinu eru einnig gerðar tillögur um breytingar á eftirliti Neytendastofu á grundvelli laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005. Lagt er til að lögfesta meginreglu um sáttaumleitan, útgáfu leiðbeinandi reglna og forgangsröðunarreglu.

Umfjöllun nefndarinnar var einkum um þær breytingar sem fyrirhugaðar eru á lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005, lögum um fjarsölu á fjármálaþjónustu, nr. 33/2005, og lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011. Þá barst nefndinni minnisblað atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis í tilefni af fram komnum athugasemdum við frumvarpið.

Nú ætla ég ekki að leggjast hér í lestur á nefndarálitinu umfram það sem ég hef þegar farið yfir. Nefndarálitið er allítarlegt, á tíu blaðsíðum, og breytingartillögur meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar eru svo á sérstöku þingskjali á fjórum blaðsíðum. Ég vildi þó nefna hér að það er gerð tillaga um breytingu á gildistökuákvæði. Í 27. gr. frumvarpsins er lagt til að lögin öðlist gildi 17. janúar 2020. Það tímamark er liðið og leggur meiri hlutinn til að þessu verði breytt þannig að lögin öðlist þegar gildi. Ég vísa að öðru leyti til þess sem ég sagði hér áðan að nefndarálitið er að finna hér á tíu blaðsíðum og síðan breytingartillögurnar á þskj. 1035.

Undir nefndarálitið rita sá sem hér stendur, Páll Magnússon, formaður nefndarinnar, Anna Kolbrún Árnadóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir, Guðmundur Andri Thorsson, Birgir Ármannsson, Jón Steindór Valdimarsson og Þórarinn Ingi Pétursson.