150. löggjafarþing — 68. fundur,  3. mars 2020.

breyting á ýmsum lögum varðandi leyfisveitingar.

332. mál
[17:30]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Við erum enn að ræða þetta stórfurðulega frumvarp um breytingu á ýmsum lögum varðandi leyfisveitingar, einföldun regluverks. Ég verð að segja að maður getur alveg orðið orðlaus yfir þessari ræðu áðan frá hv. þm. Óla Birni Kárasyni. Eins og staðan er í dag þá geta einstaklingar selt bifreiðar sínar án þess að fara til bifreiðasala. En staðan er bara sú að þú ert öruggari ef þú ferð til bifreiðasalans. Þá ertu búinn að setja ábyrgðina yfir á hann. Hann er búinn að fara í gegnum leyfisveitingar og sanna að hann þekki reglur og lög sem þetta varðar. Það er bara þetta öryggi sem við erum að biðja um. Ég segi fyrir mitt leyti að við ættum að auka kröfurnar og gera þær enn betri þannig að fólk verði enn öruggara vegna þess að það hafa nýlega komið upp dæmi um bílaleigubifreiðar þar sem kílómetramælar voru færðir niður. Það segir okkur að það eru brotalamir þarna úti og þess vegna þurfum við að herða þessi lög, gera meiri kröfur.

Ég segi fyrir mitt leyti að það að blanda inn í þetta eldhúsinnréttingum eða sjónvörpum er bara útúrsnúningur. Við vitum líka að við getum farið á netið og keypt sjónvarp eða notaða eldhúsinnréttingu eða eitthvað, en við höfum ekkert öryggi eða tryggingu fyrir því hvernig það er. En ef við kaupum það í gegnum verslun erum við alla vega komin með ákveðið neytendaöryggi, með þeirri leið. Þannig að frelsið er til staðar.

Það sem við þurfum að gera er að auka öryggið og ganga þannig frá að viðkomandi aðilar sem sjá um sölu notaðra bifreiða sjái til þess að það sé aukið öryggi, það sé tryggt að svona hlutir, eins og með sölu á bifreiðum þar sem kílómetramælarnir hafa verið færðir niður, muni ekki ske aftur. Í þessu samhengi vil ég benda á mjög ítarlega greinargerð FÍB þar sem þeir mótmæla því harðlega að þessi leið sé farin og benda meira að segja á að Norðurlöndin, Danmörk og sérstaklega er Svíþjóð tekin fram, eru að reyna að sporna við ólöglegri svikasölu á bifreiðum sem er komin upp á netinu og tröllríður bílasölumarkaðnum með svikum og prettum. Þeir benda einmitt á hvernig við höfum þetta hér. En hvað erum við að gera? Við erum að hleypa inn bara hverjum sem er sem enga hugmynd hafa um lög og reglur. Einhver getur bara stofnað bílasölu og byrjað að selja án þess að fá nein leyfi, bara byrjað að selja. Hver er ábyrgðin á því að gera svona hluti? Ég næ því ekki og ég er eiginlega orðlaus. Ef við erum að tala um að það sé rosalega dýr framkvæmd að fá leyfi til að reka bílasölur þá er leyfisgjaldið ekki nema 41.500 kr. Þetta er ekki fjárhagslega of mikið fyrir einn eða neinn. Þarna er um að ræða 47 stunda námskeið.

Ég tók líka eftir því að að meðaltali er velta í sölu notaðra ökutækja á hverju ári á bilinu 60–80 milljarðar. Við erum ekki að tala um neina smáaura. FÍB bendir í umsögn sinni í október á það að síðastliðið vor voru 2.600 ökutæki til sölu á vefsíðunni bland.is þannig að það er ekki eins og enginn geti selt þar. Og á sjö helstu bílasölusíðum á Facebook eru rúmlega 140.000 meðlimir, þ.e. einstaklingar sem hafa óskað eftir þátttöku. Þannig að það er ekkert verið að hindra neinn. En það er verið að búa til ákveðið öryggi með því að segja við neytendur: Þú getur valið. Maður getur valið að versla við einhvern sem maður veit ekkert hver er, hvort sá hafi nokkra reynslu af bílasölu, eða valið að fara til bifreiðasölu sem er með fullgilt leyfi og ber ákveðna ábyrgð. Það er einmitt það sem við erum að ræða hérna og reyna að fá botn í. En það virðist vera búið að ákveða að það eigi að henda þessu út. Hér er orðrétt sem FÍB segir, með leyfi forseta:

„Á Norðurlöndunum og víðar í Evrópu er rætt um leiðir til að koma böndum á óviðunandi ástand í bílaviðskiptum. Fagaðilar í Evrópu hafa horft sérstaklega á ,,íslenska módelið“ sem leið til að bæta viðskiptasiðferði og neytendavernd. Það veldur vonbrigðum að ráðherra neytenda- og viðskiptamála boði niðurrif á einföldu kerfi sem fulltrúar atvinnulífsins og neytenda vilja efla frekar en rífa niður.“

Þetta sýnir bara svart á hvítu að það er eitthvað gruggugt við þetta og ég segi fyrir mitt leyti að við eigum alls ekki að samþykkja þetta mál. Ég bendi á fasteignasala í því samhengi, við myndum ekki vilja hafa það þannig að löggilding fasteignasala yrði afnumin og hver sem er gæti tekið sig til og farið að selja fasteignir. Þarna gildir nákvæmlega það sama. Við eigum, eins og ég hef ítrekað, að festa þetta betur í sessi, gera meiri kröfur þannig að þeir sem versla við löggilta bílasala séu alla vega öruggir um að viðkomandi beri ábyrgð og jafnvel herða það þannig að það sé tryggt að þeir sem eru að svindla með því að færa niður kílómetramæla geti það ekki. Okkur ber skylda til þess á þessu þingi að sjá til þess að svoleiðis viðskiptahættir verði ekki liðnir og við getum einmitt gert það með því að sjá til þess að þetta frumvarp eins og það er hér verði ekki samþykkt.