150. löggjafarþing — 68. fundur,  3. mars 2020.

fasteignalán til neytenda.

607. mál
[17:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016. Frumvarpið var samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í samráði við helstu haghafa og er markmið þess tvíþætt, í fyrsta lagi að ljúka að fullu innleiðingu tilskipunar 2014/17/ESB um lánssamninga fyrir neytendur í tengslum við íbúðarhúsnæði. Tilskipunin er almennt kölluð fasteignalánatilskipunin. Með lögum um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016, og reglugerð um sama efni, nr. 270/2017, voru efnisákvæði fasteignalánatilskipunarinnar að mestu tekin upp í íslenskan rétt. Þar sem tilskipunin var ekki orðin hluti EES-samningsins voru ekki tekin upp ákvæði um heimildir lánamiðlara til að stunda viðskipti yfir landamæri, hvernig haga ætti eftirliti með slíkum aðilum og samstarfi lögbærra yfirvalda innan Evrópska efnahagssvæðisins. Nauðsynlegt er að bæta slíkum ákvæðum við fasteignalánalögin nú og ljúka með því innleiðingu tilskipunarinnar enda var hún tekin upp í samninginn með ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar nr. 125/2019 frá 8. maí 2019. Í dag starfa engir lánamiðlarar á Íslandi. Ef það breytist kallar það á nokkurt eftirlit af hálfu Fjármálaeftirlitsins, Seðlabanka Íslands og Neytendastofu. Ekki eru þó taldar miklar líkur á því að lánamiðlarar hefji starfsemi hér á landi á næstunni vegna sérkenna og smæðar íslenska lánamarkaðarins, auk þeirra takmarkana sem eru í lögum á lánveitingum í erlendum gjaldmiðlum til neytenda.

Í öðru lagi er það markmið frumvarpsins að breyta þeim ákvæðum fasteignalánalaganna og laga um neytendalán, nr. 33/2013, sem fjalla um lán sem tengjast erlendum gjaldmiðlum. Megintilefni þeirra breytingartillagna eru ábendingar og fyrirspurnir sem borist hafa fjármála- og efnahagsráðuneytinu að undanförnu frá einstaklingum sem fá laun í erlendum gjaldmiðli, eða eru búsettir erlendis, um að þeim standi hvorki til boða að taka fasteignalán né neytendalán á Íslandi því að lánveitendur bjóði ekki upp á lán við þær aðstæður þótt lög heimili það.

Með láni tengdu erlendum gjaldmiðlum er átt við lánssamning þar sem lán er tilgreint í eða bundið öðrum gjaldmiðli en tekjur lántaka eða eignir sem hann ætlar til greiðslu lánsins. Undir þetta falla líka lán sem eru tilgreind í eða bundin öðrum gjaldmiðli en gjaldmiðli þess aðildarríkis þar sem lántaki er búsettur. Framangreind skilgreining er afstæð í þeim skilningi að mat á því hvort lán telst vera tengt erlendum gjaldmiðlum ræðst fyrst og fremst af högum neytandans en ekki stöðu íslensku krónunnar. Í því felst að þegar íslenskur lánveitandi veitir lán í íslenskum krónum kann lánið eigi að síður að falla undir hugtakið, svo sem ef tekjur neytanda eru í öðrum gjaldmiðli en íslenskum krónum eða ef neytandi er búsettur í öðru aðildarríki EES. Eðli málsins samkvæmt ræðst mat á því hvort lán flokkast sem slíkt af þeim tímapunkti þegar samið er um lánveitinguna.

Af þessu má t.d. leiða að það væri talið lán tengt erlendum gjaldmiðli ef einhver væri að flytja til landsins og vildi taka íslenskt krónulán til að kaupa sér fasteign á Íslandi en gæti ekki sýnt fram á annað en að hafa haft tekjur í erlendum gjaldmiðli fram að lántökunni.

Hér verður að hafa í huga að með lögum nr. 36/2017, um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um Seðlabanka Íslands, lögum um neytendalán og lögum um fasteignalán, voru gengistryggð lán heimiluð hér á landi að nýju, en þau höfðu verið óheimil frá gildistöku laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Með breytingalögunum var brugðist við rökstuddu áliti Eftirlitsstofnunar EFTA frá 22. maí 2013 um að bann við gengistryggingu fjárskuldbindinga í íslenskum krónum, í lögum um vexti og verðtryggingu, samrýmdist ekki 40. gr. EES-samningsins um frjálst fjármagnsflæði.

Með lögum nr. 36/2017 var einnig kveðið á um ýmis ný réttindi og skyldur neytenda og nýjar skyldur lánveitenda til að tryggja neytendavernd vegna slíkra lána. Jafnframt var Seðlabanka Íslands veitt heimild til að nota þjóðhagsvarúðartæki, þ.e. að setja lánastofnunum reglur sem takmarka útlán tengd erlendum gjaldmiðlum til aðila sem ekki eru varðir fyrir gjaldeyrisáhættu. Þessi heimild hefur ekki verið nýtt enn sem komið er enda hafa lánveitendur ekki boðið þessi lán að undanförnu og þau hafa því ekki skapað sérstaka áhættu.

Þeir sem fylgdust með umræðu um þetta efni á sínum tíma muna eflaust að þetta úrræði Seðlabankans var eins konar öryggisventill gegn því að þurfa að opna að nýju á möguleikann fyrir erlend lán. Ég held að ágætlega hafi tekist til við þessa lagabreytingu en enn sem komið er eru erlendar lánveitingar ekki til staðar á íslenska fjármálamarkaðnum og það er einungis horft til þess að Seðlabankinn myndi grípa til þessa úrræðis ef áhætta væri að safnast upp í kerfinu hjá okkur.

Aftur að því hvernig það sem ég er hér að rekja um Seðlabankann tengist efni frumvarpsins. Það er mikilvægt að hafa í huga að jafnvel þótt frumvarpið sé hlutlaust gagnvart því hvort verið er að veita erlent lán á móti íslenskum tekjum eða íslenskt lán á móti erlendum tekjum er breytingin sem lögð er til með frumvarpinu fyrst og fremst til komin vegna vanda þeirra sem eru að flytja til landsins eða þeirra sem hafa annan fótinn á Íslandi, eru t.d. að vinna í fluggeiranum eða eru sérfræðingar starfandi erlendis og hafa sínar tekjur í útlöndum. Frumvarpið er fyrst og fremst til komið til þess að mæta þeim vanda sem þeir lenda í á Íslandi. Þeir standa sem sagt frammi fyrir því að fá hvorki erlent lán, sem bankarnir veita ekki almennt og er mjög óæskilegt og við erum flest sammála um að við viljum ekki sjá slík lán byggjast upp á fasteignalánamarkaði eða á neytendamarkaði, né íslenska lánið vegna þess sem ég hef hér verið að rekja.

Þá er mikilvægt að hafa í huga að jafnvel þótt reglurnar séu hlutlausar hvað þetta snertir hefur Seðlabankinn alltaf þá heimild gagnvart erlendu lánunum að þrengja að veitingu þeirra.

Meðal ástæðna sem nefndar hafa verið fyrir því að lánveitendur vilji ekki veita lán tengd erlendum gjaldmiðlum er að neytandi hefur einhliða rétt til að breyta láninu í lán sem ekki er tengt erlendum gjaldmiðli. Neytanda með tekjur í öðrum gjaldmiðli en krónum sem fengi lán í krónum til að kaupa fasteign hér á landi væri þannig heimilt að breyta því láni í lán í öðrum gjaldmiðli en krónum. Hið sama ætti við um námsmann erlendis sem fengi lán í íslenskum krónum, hann ætti rétt á að breyta láninu í gjaldmiðil þess lands þar sem hann var búsettur við lántökuna. Ætla má að slíkt gæti gerst þegar aðstæður til þess væru almennt hagstæðar fyrir neytandann og því gætu lánveitendur t.d. séð gjaldeyrisjöfnuð sinn breytast fljótt ef margir neytendur nýttu breytiréttinn á svipuðum tíma. Það er áhætta sem lánveitendum hugnast ekki að taka og þess vegna hafa þeir ekki farið út á þessa braut. Þetta hefur leitt til þessa ástands sem við erum hér að lýsa. Sem dæmi um einstaklinga sem fá ekki lán má nefna sjómenn, starfsmenn flugfélaga eins og ég hef hér áður nefnt, námsmenn og aðra sem starfa sinna vegna eða náms fá laun greidd í öðrum gjaldmiðlum en íslenskum krónum eða þurfa að vera búsettir erlendis.

Til að stuðla að því að neytendum standi til boða að taka lán hér á landi í íslenskum krónum, þó að þeir séu með tekjur í erlendum gjaldmiðli eða séu búsettir erlendis, eru lagðar til ýmsar breytingar á fasteignalánalögunum og neytendalánalögunum sem ætlað er að liðka fyrir slíkum lánveitingum. Breytingarnar eiga einnig við um lán í öðrum gjaldmiðlum en íslenskum krónum, enda ber samkvæmt skuldbindingum okkar á grundvelli EES-samningsins að líta til aðstæðna neytandans við mat á áhættu við lánveitingu og ekki mismuna eftir gjaldmiðlum. Veigamesta breytingin sem lögð er til á báðum lögunum er sú að lagt er til að réttur neytenda til að breyta eftirstöðvum láns sem tengist erlendum gjaldmiðlum í lán sem tengist ekki erlendum gjaldmiðlum eigi ekki við þegar lánsfjárhæð og veð sem sett er til tryggingar láninu, t.d. í íbúðarhúsnæði, eru í sama gjaldmiðli, svo sem íslenskum krónum. Gjaldeyrisáhætta neytanda í slíkum tilvikum er mun minni en þegar lánsfjárhæð og veð eru í ólíkum gjaldmiðlum. Breytiréttur neytanda mun áfram eiga við ef lán og veð eru í mismunandi gjaldmiðlum, svo sem ef lánað er í evrum til kaupa á ökutæki hér á landi með veði í því.

Aðrar breytingar sem lagðar eru til á neytendalánalögunum eru þær að almennar viðmiðunarfjárhæðir greiðslumats, 2 milljónir fyrir einstaklinga og 4 milljónir fyrir hjón og sambúðarfólk, eigi einnig við um lán sem tengjast erlendum gjaldmiðlum í stað þess að í öllum tilvikum verði að framkvæma greiðslumat vegna slíkra lána. Einnig að heimilt verði að veita lán tengt erlendum gjaldmiðlum þrátt fyrir neikvæða niðurstöðu greiðslumats að uppfylltum þeim skilyrðum sem eiga almennt við um lánveitingar þrátt fyrir neikvætt greiðslumat, þ.e. að frekari upplýsingar frá neytanda sýni fram á að líklegt sé að neytandi geti staðið í skilum með lánið. Lánveitandi skal í slíkum tilvikum, rétt eins og vegna annarra lána sem veitt eru þrátt fyrir neikvæða niðurstöðu greiðslumats, skjalfesta rökstuðning fyrir ákvörðun, útskýra hana fyrir neytanda og varðveita gögn henni til stuðnings eins og við á.

Við vinnslu frumvarpsins var haft samráð við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Seðlabanka Íslands, Neytendastofu og Samtök fjármálafyrirtækja. Drög að frumvarpinu voru birt tvívegis til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda, fyrst í ágúst 2018 og svo í febrúar á þessu ári. Umsagnir bárust frá Hagsmunasamtökum heimilanna, Samtökum fjármálafyrirtækja og Neytendastofu. Ástæða þótti til að bregðast við hluta af athugasemdum með breytingum á frumvarpsdrögunum.

Markmiðið með þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu á ákvæðum um lán sem tengjast erlendum gjaldmiðlum er að lánveitendur muni hefja að bjóða þeim neytendum sem eru búsettir erlendis eða með tekjur í erlendum gjaldmiðlum lán í íslenskum krónum enda standist neytandi, þegar við á, sérstakt greiðslumat vegna slíkra lána. Verði það raunin munu þeir einstaklingar sem eiga í hlut geta tekið umrædd lán og þegar það á við eignast húsnæði.

Virðulegi forseti. Það kemur ekki á óvart að sporin hræði þegar erlend lán eru annars vegar. Hræðslan við að fortíðarvandi endurtaki sig má þó ekki gera það verkum að við útilokum ákveðinn hóp fólks frá því að geta yfir höfuð fengið lán, m.a. til húsnæðiskaupa. Við verðum líka að hafa í huga að fjármálastöðugleiki er nú vaktaður með kerfisbundnum hætti og Seðlabankinn hefur lagaheimildir til bregðast við ef lán tengd erlendum gjaldmiðlum eru líkleg til að skapa hættu. Það að veita lán í erlendum gjaldmiðlum er ekki óheimilt en slíkum lánveitingum getur fylgt áhætta og nú er gert ráð fyrir að úr þeirri áhættu verði dregið með ýmsu móti.

Virðulegi forseti. Ég legg til að þessu frumvarpi verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að aflokinni þessari umræðu og svo til 2. umr. í þinginu.