150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

störf þingsins.

[15:03]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Búnaðarþingi er nýlokið. Þar var á einu bretti skipt um stjórn Bændasamtakanna og nýjar áherslur boðaðar. Full ástæða er til að óska nýrri forystu velfarnaðar og að henni auðnist að færa landbúnaðinn nær nútímanum, kröfum neytenda og aukinni nýsköpun. Það verður ekki síst gert með því að endurhugsa styrkjakerfi landbúnaðarins frá grunni, hafa það skilvirkt, opið og gagnsætt. Það blasir við að beinn fjárhagslegur stuðningur við landbúnaðinn nemur mörgum milljörðum króna í kerfi sem er lokað og ógagnsætt. Fyrsta skref nýrrar bændaforystu ætti að vera að kalla eftir því að upplýsingar um ráðstöfun þessa fjár verði öllum aðgengilegar, niður brotið eftir styrkþegum og tegund styrkja eins og tíðkast um alla Evrópu. Það væri sannarlega yfirlýsing um breytta starfshætti. Þarna eiga bændur sjálfir að taka forystu. Traust almennings og stuðningur við bændur eru verðmæti sem þeir verða að gæta sín á að glutra ekki niður.

Nýlega lagði ég fram fyrirspurn um stuðning við sauðfjárbú sem hæstv. landbúnaðarráðherra treysti sér ekki til að svara og bar því við að það væri óheimilt. Það gladdi mig því að sjá grein í Kjarnanum í dag eftir Ólaf Arnalds þar sem hann greinir frá því að úrskurðarnefnd upplýsingamála hafi úrskurðað honum í vil en hann falaðist einmitt eftir upplýsingum af svipuðum toga.

Ég trúi því að hæstv. landbúnaðarráðherra muni vinda bráðan bug að því að svara fyrirspurn minni sem hann áður neitaði. Ég mun enn fremur óska eftir frekari upplýsingum um ráðstöfun styrkja í landbúnaði. Raunar hef ég hug á að beita mér fyrir lagasetningu um skyldu hins opinbera til að birta opinberlega gögn um alla þá sem njóta styrkja og ívilnana til atvinnusköpunar eða tiltekinna verkefna. Það er liður í því að auka traust og gagnsæi í samfélaginu.