150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þann 8. mars nk. eru 30 ár liðin frá stofnun Stígamóta. Stígamót voru stofnuð sem samtök kvenna gegn kynferðisofbeldi. Aðdragandi þess var að það voru nokkrir sjálfboðahópar kvenna sem höfðu komið að álíka málum og ákváðu að taka höndum saman og stofna samtök. Stígamót, staðurinn þar sem stígar mætast, voru stofnuð á baráttudegi kvenna árið 1989. Þarna var stigið stórt skref og mikilvægt í réttindabaráttu kvenna. Núna starfa Stígamót sem ráðgjafar- og stuðningsmiðstöð fyrir bæði konur og karla sem hafa verið beitt hvers kyns kynferðisofbeldi.

Virðulegi forseti. Mig langar að nota þetta tækifæri til að segja: Takk. Takk, þið konur sem stigu þetta skref. Takk fyrir hönd þeirra kvenna sem fengu þarna tækifæri til að stíga fram og létt af sér þungri byrði og fengu áheyrn og þar með bata. Takk, þið konur sem stigu þetta skref og stöðvuðu þá þöggun sem viðhafðist á þessum tíma í samfélaginu okkar. Fyrir 30 árum hafði þessu málefni ekki verið sinnt af heilbrigðiskerfinu og lítt af dómskerfinu. Þrátt fyrir að sannarlega mætti finna viðurlög vegna kynferðisofbeldis í lögum þurftu þeir sem lentu í kynferðislegu ofbeldi að klífa sextugan hamarinn í leit að réttlæti.

Fyrsta áratug Stígamóta unnu þau að mikilvægasta verkefninu en það var að standa upp og opna þessa umræðu og berjast þar með fyrir bættu samfélagi og því að umræða um kynferðisofbeldi væru opin og viðurkennd. Þegar sú umræða fór af stað tók samfélagið við sér og sem betur fer hafa félags- og heilbrigðisyfirvöld í dagstyrkt umhverfi sitt í átt að heilbrigðari umræðu í þessum málum. Umræðan hefur líka opnað á afleiðingar ofbeldisins og þar með á fjölbreytta meðferð til að styrkja þolendur til að lifa með því. Þrátt fyrir að markmið Stígamóta hafi náðst með því að opna umræðuna í þjóðfélaginu og viðurkenna skelfilegar afleiðingar þessa ofbeldis verður samfélagið stöðugt að halda þessum boltum á lofti.