150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég segi: Takk RÚV fyrir Kveikþáttinn í gærkvöldi. Í honum kom eftirfarandi fram orðrétt, með leyfi forseta:

„Tugþúsundir Íslendinga búa við fátækt sem takmarkar möguleika þeirra. Samkvæmt tölum Hagstofunnar eru 28.000–35.000 manns undir lágtekjumörkum, og eru þar með fátækir, þar af allt að 10.000 börn undir 16 ára aldri.“

Þá kom einnig fram að stór hópur fólks sem fær félagslegar bætur, örorkubætur, atvinnuleysisbætur, ellilífeyri eða er í láglaunastörfum er undir lágtekjumörkum. Svo er annar hópur sem er rétt fyrir ofan lágtekjumörk.

Hvernig er að búa við fátækt, jafnvel allt sitt líf og hvernig er að alast upp í fátækt? Hvaða áhrif hefur fátækt á fólk og fjölskyldur? Hjá fólki sem býr alla ævi við fátækt lækka lífslíkurnar um 10–12 ár. Meðalævi styttist um 10–12 ár hjá þeim fátæku miðað við þá ríku. Þetta er fáránlegt og okkur til háborinnar skammar. Þarna undir eru einstæðir foreldrar, öryrkjar, láglaunaforeldrar og börn þeirra. 10.000 börn sem alast ekki bara upp í fátækt heldur 3.000 í sárafátækt. Ekki fá þau sömu tækifæri og önnur börn og eiga því á hættu að glíma við fátækt, sárafátækt og heilsuleysi allt sitt líf. Fátækir geta ekki beðið lengur en samt bíða þeir enn eftir réttlætinu, bíða og bíða og verða að neita sér um hollt fæði, heilbrigðisþjónustu, lyf og að búa við mannsæmandi húsakost. Nei, föst í heljargreipum fátæktar í boði ríkisstjórnar eftir ríkisstjórnar. Þess vegna var Flokkur fólksins stofnaður. Þess vegna erum við Inga Sæland á Alþingi. Við erum númer eitt, tvö og þrjú að berjast fyrir því að enginn búi við fátækt, hvað þá sárafátækt sem er ömurlegt að sé til í samfélagi okkar í dag. Það furðulega í þessu samhengi er að það kostar þjóðfélagið meira að halda 28.000–30.000 manns í fátækt heldur en að útrýma fátæktinni strax.

Flokkur fólksins segir: Hættum strax t.d. að skatta fátækt. Við höfum efni á því en höfum ekki efni á því að gera það ekki.