150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að tala um matvælaframleiðslu á Íslandi. Það er verið að vinna að matvælastefnu fyrir Ísland og mér finnst mjög mikilvægt að inn í þá stefnu sé tekin sú mikla matvælaframleiðsla sem er núna í sjókvíaeldi, bæði í laxi, regnbogasilungi og líka uppi á landi. Það er verið að tala um að auka mjög framleiðslu vítt og breitt um heiminn í sjókvíaeldi og þar erum við Íslendingar þátttakendur. Það eru áform um að auka mjög framleiðslu hér heima, t.d. hafa á Bíldudal í febrúar verið unnin og seld um 1.000 tonn sem eru um 12.000 máltíðir. Í fyrra var þar slátrað um 10.000 tonnum en það eru áform um að slátra þar 12.000 tonnum á þessu ári. Þetta er gífurlegt magn og við þurfum að byggja upp þannig innviði að við getum staðið með þessari nýju grein sem á eftir að afla okkur Íslendingum mikilla gjaldeyristekna og ekki veitir af. Hér var umræða um fátækt og ekki veitir okkur af að fá fjármagn í ríkiskassann til þess einmitt að standa með fátæku fólki í landinu og bæta þeirra kjör.

Markaðir úti hafa verið að lokast fyrir laxi en þegar þeir opnast aftur, t.d. í Kína, þá erum við með þannig samninga við Kína að við eigum auðveldara með að koma hráefni okkar þar á markaði heldur en margir aðrir, eins og Færeyingar. Heildarmarkaður fyrir lax í heiminum eru 2 milljónir tonna á ári svo að þetta eru gífurlega mikil og stór tækifæri fyrir okkur sem þjóð að vera þátttakendur í matvælaframleiðslu og selja afurðir frá Íslandi.