150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegur forseti. [Þingmaður sprautar hreinsigeli í lófann og nuddar saman höndum.] Þetta tók samtals 12 sekúndur, þ.e. sú sjálfsagða aðgerð sem heilbrigðisyfirvöld og sóttvarnalæknir og fleiri eru búnir að leggja til við okkur að við förum öll í, gerum sem oftast, tekur samtals 12 sekúndur af tíma okkar. Það eru sprittbrúsar og sprittstandar úti um allt þinghús og orðið mjög víða um samfélagið. Notum þá. Þannig verjum við ekki bara okkur sjálf heldur líka þá sem við þurfum virkilega að verja, þ.e. þá aðila sem verst standa gagnvart því að fá erfiðar sýkingar eins og Covid-19 veiran hefur reynst vera.

Það er full ástæða til að þakka sérstaklega viðbragðsaðilum. Það er ástæða til að þakka sérstaklega sóttvarnalækni, heilbrigðiskerfinu öllu og ekki síst almenningi í landinu fyrir það hvernig hann hefur brugðist við sjálfsögðum leiðbeiningum og upplýsingagjöf frá sóttvarnalækni. Við erum að berjast við faraldur á heimsvísu sem hefur dánartíðni einhvers staðar á bilinu 0,5–8%. Ef þið haldið, ágætu hv. þingmenn, að 8% séu frá einhverju þróunarlandi er ekki svo. 8% dánartíðnin er frá Bandaríkjum Norður-Ameríku. Hálfa prósentið er í Suður-Kóreu.

Umfram allt: Förum eftir leiðbeiningum, sprittum okkur, því að þetta er verkefni sem við verðum að leysa saman.