150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

jafnt atkvæðavægi.

[15:39]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. málshefjanda, Helga Hrafni Gunnarssyni, fyrir að setja á dagskrá mál sem er undirstöðuatriði í hverju lýðræðissamfélagi. Þá er mikilvægt að rifja upp söguna því að umræðan um vægi atkvæða hefur ekki alltaf bara snúist um landshluta. Þegar almennar kosningar voru fyrst teknar upp var nefnilega kosningarrétturinn takmörkuð gæði, réðst af eignastöðu fólks, tekjum þess og þeim sköttum sem þær skiluðu. Það er áhugavert að lesa söguna um þetta. Til að mynda var ég að glugga í nýja bók eftir Thomas Piketty þar sem hann fjallar um kosningakerfið í Svíþjóð á 19. öld og fram til 1911 þar sem einn einstaklingur gat, ef hann átti nægar eignir og skilaði nægum skatttekjum, ráðið yfir allt að 50% atkvæða í því kjördæmi sem hann kaus í. Þegar kosningarréttur var innleiddur á Íslandi, fyrst 1843 með tilskipun Danakonungs, náði hann einungis til karlmanna sem áttu jörð, a.m.k. 10 hundraða dýrleika, þannig að þessi eignaskiptingarumræða í tengslum við atkvæði var mjög áberandi við upphaf hinna lýðræðislegu kosninga.

Sem betur fer erum við nú komin fram hjá því kerfi þar sem eignastaða fólks ræður kosningarrétti en um leið hafa vaknað knýjandi spurningar um atkvæðavægi milli ólíkra landshluta. Eins og hv. þingmaður benti á hefur þróunin verið í þá átt að jafna vægi atkvæða og stækka kjördæmin samhliða breyttri dreifingu byggðar í landinu. Frá árinu 1944 hefur stjórnarskránni þrisvar verið breytt í þessu skyni, árin 1959, 1984 og 1999. Með stjórnarskipunarlögum frá árinu 1999 var núverandi skipulagi komið á og þá var horfið frá þeirri kjördæmaskipan sem innleidd var 1959 og tiltekið að kjördæmi skyldu vera sex eða sjö. Sú nýbreytni var tekin upp í stjórnarskrá að krafist er tveggja þriðju hluta atkvæða á Alþingi til að breyta lögum um kjördæmamörk og tilhögun og úthlutun þingsæta en ekki þarf að breyta stjórnarskránni sjálfri. Þingmenn sem kosnir eru beint eru 54 en þingmenn í svokölluðum jöfnunarsætum eru níu en aðeins stjórnmálasamtök með yfir 5% fylgi koma til greina við úthlutun jöfnunarsæta.

Með þessari breytingu voru reglur stjórnarskrár um kosningar einfaldaðar og jöfnuður í vægi atkvæða aukinn þótt enn sé misvægi milli kjördæma allt að því tvöfalt. Núverandi ákvæði stjórnarskrárinnar, eins og þeim var breytt, heimila breytingar á kjördæmamörkum með almennum lögum séu þær samþykktar með tveimur þriðju hluta atkvæða á Alþingi. Hugsanlega væri hægt að nýta þessa heimild til að jafna vægi atkvæða, eins og hv. þingmaður nefndi áðan, með einhvers konar uppbroti kjördæma.

Kosningalögin mæla einnig fyrir um breytingar á fjölda kjördæma og kjörinna þingmanna í einstökum kjördæmum ef misvægi atkvæða fer yfir leyfilegt hámark samkvæmt ákvæðinu. Ef svo fer fram sem horfir gæti svo farið, eins og hv. þingmaður nefndi, að slíkt misvægi færi yfir mörk á milli Norðvesturkjördæmis og Suðvesturkjördæmis. Alveg eins og lýðræðissjónarmið mæltu með því að eigna- og tekjustaða skyldi ekki ráða kosningarrétti manna mæla þau almennt með aukinni jöfnun á vægi atkvæða. Leyfilegt misvægi er nú allt að 100%. Ef við horfum til landanna í kringum okkur er misvægi milli einstakra kjördæma mest í Noregi þar sem vægi atkvæða er mest í nyrstu byggðum, allt að 150% meira miðað við suðrið, en almennt er þó atkvæðavægi ámóta í flestum fylkjum Noregs.

Eftirlitsnefnd ÖSE gagnrýndi misvægi atkvæða hér á landi í úttekt á þingkosningum 2009 og ÖSE hefur einnig gagnrýnt Noreg fyrir það sama, en þessi umræða hefur haldist í hendur við þau sjónarmið að landið verði þá eitt kjördæmi.

Þá komum við að þeim spurningum sem hv. þingmaður varpaði hér fram. Hverju erum við að fórna við það að landið verði eitt kjördæmi? Þetta var til umfjöllunar í rökræðukönnun sem haldin var um endurskoðun stjórnarskrárinnar um m.a. forseta og framkvæmdarvald, persónukjör, kjördæmaskipan og atkvæðavægi. Það var nokkuð ljóst að fleiri voru sammála því eftir umræðurnar á þeim fundi að jafnt vægi atkvæða væri mikilvægasta markmið breytingar sem gera ætti á kjördæmaskiptingu. Við umræður á þessum rökræðufundi má segja að stuðningur hafi aukist við jöfnun atkvæðavægis. Hins vegar eru til ýmsar leiðir og þær þurfa ekki allar að snúast um að gera landið að einu kjördæmi sé okkur umhugað um það að tryggja einhvers konar dreifingu milli landshluta og tryggja að öll sjónarmið eigi fulltrúa á Alþingi óháð búsetu.

Nefnt hefur verið að hægt væri að fara einhvers konar millileið, þ.e. blanda saman landskjöri, kjördæmakjöri og persónukjöri. Það myndi vissulega flækja kerfið frá því sem nú er en ég er ekkert hrædd við flækjur (Forseti hringir.) ef markmiðin eru rétt og breytingar eru gerðar af skynsemi og gagnsæi. Ég hef hins vegar ekki tekið afstöðu til þess. Ég vil ítreka, af því að nú hringir forseti bjöllu, (Forseti hringir.) að þetta er ekki mál með beinlínis einfaldri lausn eða sem verður leyst með einu pennastriki og því fagna ég þessari umræðu hv. málshefjanda.