150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

jafnt atkvæðavægi.

[15:45]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að taka þetta mál á dagskrá. Þau eru mörg og fjölþætt, vandamálin sem við á Alþingi þurfum að takast á við hverju sinni og finna lausnir á. Sjálfur tel ég þetta ekki vera eitt af þeim mest aðkallandi sem eru uppi á borðum um þessar mundir. Þó að atkvæðavægi sé vissulega misjafnt á milli kjördæma er atkvæðavægi milli flokka jafnað með býsna fullnægjandi hætti að mínu mati. Ég held að frávikin sem eru frá því að flokkur fái heilan viðbótarþingmann út frá raunverulegum þingstyrk á landsvísu séu — við getum rifjað upp umræðuna eftir síðustu kosningar þar sem Framsóknarflokkurinn fékk, ef ég man rétt, einum þingmanni meira en Samfylkingin. Það olli töluverðum usla. Ég held að það að einn þingmaður sé aukalega í Framsóknarþingflokknum samanborið við Samfylkinguna sé ekki vandamál sem kalli sérstaklega á að þetta kerfi verði tekið upp í heild sinni.

Á sama tíma held ég að það sé nauðsynlegt að þetta verði ekki rætt bara mjög þröngt. Við verðum líka að horfa á stöðu landsbyggðarinnar gagnvart hinum arminum, framkvæmdarvaldinu, þar sem stofnanakerfi ríkisins, öll ráðuneytin samkvæmt stjórnarskrá, verður staðsett í höfuðborginni og í rauninni allur kostnaður, og aðgengi landsbyggðar að stjórnsýslunni er miklum mun þrengra en þeirra sem búa á svæðinu milli Hvítár og Hvítár ef ég nota þá afmörkun. Ég hvet til þess að ekki verði rokið af stað í þetta mál með það að leysa slík risavandamál að endrum og sinnum lendi einn aukaþingmaður í Framsóknarflokknum (Forseti hringir.) en ekki Samfylkingunni.