150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

jafnt atkvæðavægi.

[15:47]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég held að þegar við nálgumst þessi mál þurfum við að ræða þau í heildarsamhengi eins og menn hafa komið inn á. Ef ég mætti sjálfur velja eitthvert tiltekið svið stjórnarskrárinnar sem ég teldi að ætti að endurskoða er það akkúrat þetta. Ég hef verið andvígur ýmsum hugmyndum sem hafa komið upp um breytingar á stjórnarskrá á undanförnum árum en ef ég ætti að velja af mínum óskalista væri það breyting á atkvæðavægi, kosningakerfi og kosningafyrirkomulagi í landinu.

Ég nálgast þetta þannig að þingmenn eru kosnir sem fulltrúar fyrir fólk, ekki fyrir ferkílómetra, landsvæði eða annað þess háttar. Þess vegna þarf að nálgast málið út frá því að fólk, hvar sem það býr á landinu, búi við jafnan rétt að þessu leyti. Ég hef ekki viljað ganga svo langt að gera landið að einu kjördæmi. Ég held að ákveðin verðmæti séu fólgin í því að þingmenn séu kosnir fyrir afmarkaðri hluta landsins frekar en að landið allt sé eitt kjördæmi. Ég held að það tengi þingmennina og umbjóðendur þeirra betur þannig að ég viðurkenni að út frá reiknilegum forsendum getur verið um það að ræða að hægt sé að una við einhverja mismunun. Mismunurinn er í dag of mikill að mínu mati og það er verðugt verkefni að finna leiðir til að jafna vægið. Það er hægt að gera að einhverju leyti innan núverandi ramma en ég lýsi sjálfan mig alveg opinn fyrir því að skoða aðrar leiðir, hvort sem þær fela í sér fjölgun kjördæma, frekara uppbrot þeirra eða annað það fyrirkomulag sem getur leitt til þess að (Forseti hringir.) mismunurinn minnki frá því sem nú er.