150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

jafnt atkvæðavægi.

[15:50]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu sem er góð, gagnleg og mikilvæg. Ég er þingmaður Suðvesturkjördæmis þar sem atkvæði kjósenda hafa minna vægi en sums staðar annars staðar á landinu. Það er sem sagt litið svo á að mikilvægara sé að aðrir og fámennari landshlutar hafi hér fulltrúa en það svæði sem ég er kjörinn fyrir, m.a. með þeim afleiðingum að sá flokkur sem ég er fulltrúi fyrir, Samfylkingin, hefur einum fulltrúa færri en ella. Ég tek ekki undir það sjónarmið að það sé alveg sérstakt fagnaðarefni.

Rökin fyrir þessu snúast um valdeflingu þeirra sem fjarri valdastofnunum búa sem eru vissulega gild sjónarmið. Það er talið mikilvægt að rödd allra heyrist og að allir hafi áhrif hvað sem líður margmenni. Gott og vel, en mér finnst hins vegar að við eigum að reyna að komast sem næst þeirri reglu að einn maður hafi eitt atkvæði. Mér finnst það réttlátt.

Almennt talað hef ég vissar efasemdir um hugtakið þjóð eins og það er oft notað í opinberri umræðu, eins og margir vilji nota það með ákveðnum greini og tala um þjóðina. Það er talað um þjóðina eins og nokkurs konar lífveru sem hafi bara einn hug, einn vilja og eitt hjarta. Ég held að samfélag okkar sé samsett úr mörgum ólíkum hópum sem hafa ólíka hagsmuni og ólíka sýn. Ég held að til séu margir þjóðarviljar og mér finnst að þessi samkoma hér eigi sem mest að endurspegla marga ólíka þjóðarvilja.

Ég held að við kæmumst næst því að endurspegla hina mörgu ólíku þjóðarvilja úti í samfélaginu (Forseti hringir.) ef hér væri eitt kjördæmi og síðan væru ákvarðanir um hagsmuni heimabyggðanna sem mest færðar heim í hérað.