150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

jafnt atkvæðavægi.

[16:13]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu. Hún hefur verið um margt fróðleg og kemur kannski ekki á óvart að afstaða þingmanna virðist vera bundin póstnúmerum. Það er í takt við það hvort flokkar hagnist eða tapi á núverandi fyrirkomulagi. Það kemur kannski ekki á óvart, mér skilst að þannig hafi þetta alla tíð verið og ekki hægt að ná vitrænni umræðu í þinginu um kjördæmaskipan fyrr en hægt var að sýna þingmönnum fram á hvernig þeir kæmu sjálfir út úr breytingum á kjördæmaskipaninni. Það er auðvitað miður því að á endanum er þetta afskaplega einfalt og skýrt mál. Er maður með hálft atkvæði eða heilt? Það er það sem málið snýst um. Eru það mannréttindi að sumir kjósendur í þessu landi hafi hálft atkvæði á við aðra kjósendur, að kjósendur í Suðvesturkjördæmi séu með hálfan atkvæðisrétt samanborið við kjósendur í Norðvesturkjördæmi? Það er allt flækjustigið í þessu máli og það kemur í sjálfu sér ekki á óvart að núverandi ríkisstjórnarflokkar hafi takmarkaðan áhuga á að breyta þessu, að þetta sé ekki meðal forgangsatriða þeirra flokka við endurskoðun á stjórnarskrá, þrátt fyrir að kjósendur segi annað. Kjósendur segja nefnilega skýrt: Þetta er það mikilvægasta sem við þurfum að breyta í stjórnarskránni, þetta er það sem skiptir mestu máli. Það er auðvitað það sem skiptir mestu máli, það eru einfaldlega sjálfsögð mannréttindi að allir kjósendur sitji við sama borð, að öll njótum við sama kosningarréttar, að ég helmingi ekki kosningarrétt minn, svo dæmi sé tekið, með því að flytja úr Norðvesturkjördæmi í Suðvesturkjördæmi. Þetta er ekki flóknara. Einfaldast er að breyta því með því að gera landið að einu kjördæmi. Sjálfsagt getum við fundið aðrar lausnir en við þurfum að breyta fyrirkomulaginu. Við getum breytt því, eigum að gera það fyrir næstu kosningar og ekki hika neitt við það.