150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

Almannavarnir.

[16:28]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni, fyrir að setja þetta mikilvæga mál á dagskrá. Ég held að óhætt sé að segja að þessi vetur hafi minnt okkur á mikilvægi almannavarnakerfisins, að það sé traust og að það sé starfandi um land allt, og minnt okkur líka á, sem ég hef sagt nokkrum sinnum á undanförnum dögum, að við erum öll almannavarnir. Það skiptir máli nefnilega að þjóðin taki þátt í almannavörnum, sé vel upplýst og meðvituð um hlutverk sitt þegar á bjátar, eins og hefur verið í vetur, hvort sem það hafa verið jarðhræringar, veðurofsi, snjóflóð og nú sá veirufaraldur sem gengur yfir heimsbyggðina.

Hv. þingmaður vísaði sérstaklega til loftslagsbreytinga. Í áhættumati þjóðaröryggisráðs sem er núna á lokastigum er sérstaklega fjallað um loftslagsbreytingar og hvernig þær geta snert öll svið samfélagsins og haft neikvæð áhrif á íslensk öryggismál. Þær geta ekki aðeins leitt til aukinnar tíðni náttúruhamfara og áhrifa á náttúrufar, aukinnar hættu á ofanflóðum og meiri úrkomuákefðar heldur geta þær einnig stefnt mikilvægum innviðum og efnahagslífi í hættu, einkum þegar til lengri tíma er litið.

Í þessu sama mati sem ég mun óska eftir við forseta Alþingis að verði rætt á vettvangi Alþingis kemur sömuleiðis fram að við þurfum að vera undir það búin að bregðast við alvarlegum samfélagslegum áskorunum sem kunna að koma upp vegna náttúruvár. Það nægir að draga lærdóm af því sem hefur gengið á þennan veturinn. Ég tek undir það með hv. þingmanni að það var mikilvægt að draga lærdóm af óveðrinu sem gekk yfir landið í desember og fara sérstaklega yfir þætti sem varða orkuöryggi, fjarskiptaöryggi og aðra innviði sem snúast um að tryggja öryggi landsmanna allra um land allt.

Hv. þingmaður nefnir sömuleiðis fyrirkomulag almannavarna. Það eru rúmlega tíu ár síðan almannavarnalögin voru samþykkt og ég held að þegar við lítum til baka vitum við að viðbragðskerfi almannavarna hefur margsannað sig á þessum tíma og raunar fyrir hann. Það skiptir máli að horfa til þess sem vel hefur verið gert, og svo sannarlega hefur margt verið vel gert, en um leið þurfum við að horfa til þessara nýju áskorana. Ég er ekki eingöngu að tala um loftslagsvána. Ég nefndi raforku- og fjarskiptaöryggi áðan enda eru tæknibreytingar að breyta þessum áskorunum. Samfélagið sem við byggjum núna er öðruvísi en fyrir 20 árum þegar kemur að þeim málum.

Það er mjög mikilvægt að reglulega fari fram fagleg könnun á virkni almannavarnakerfisins og greint hvað megi betur fara hvað varðar starfshætti, skipulag og viðbúnað alls stjórnkerfisins á sviði almannavarna, að sveitarfélög séu virkir þátttakendur, eins og hv. þingmaður nefndi, ásamt stjórnvöldum. Almannavarnakerfi þarf alltaf að vera í stakk búið til að bregðast við hvers kyns neyðaraðstæðum. Það er ástæða til að fara yfir fyrirkomulag almannavarna og hvernig þær skarast við aðra þætti í viðbragðskerfi okkar. Ég hef rætt það á vettvangi þjóðaröryggisráðs sem forsætisráðherra leiðir að við þurfum sérstaklega að fara yfir samspil þjóðaröryggisráðs við almannavarnakerfið. Þetta ráð hefur núna komið nokkrum sinnum saman til upplýsinga- og stöðufunda vegna veðurofsa, veirufaraldursins og fleiri aðstæðna þannig að þetta þarf núna að yfirfæra þegar reynsla er komin á virkni þessa ráðs og hvert hlutverk þess á að vera í samspili við almannavarnir.

Hv. þingmaður nefndi björgunarsveitirnar sem eru alveg gríðarlega mikilvægur þáttur í okkar almannavarnakerfi. Þær hafa þá sérstöðu að þær eru byggðar upp á starfi sjálfboðaliða og þær eru líka byggðar upp á miklu sjálfsaflafé. Björgunarsveitirnar eru alveg magnaður þáttur í okkar almannavarnakerfi en það skiptir líka máli að við horfum til þess hvernig við getum staðið vörð um það frumkvæði og þann kraft sem felst í því að virkja sjálfboðaliða til björgunarstarfa en tryggja um leið grunnfjármögnun starfs þeirra þannig að björgunarsveitirnar geti áfram verið sá trausti og mikilvægur þáttur í okkar almannavarnakerfi sem um ræðir.

Ég vil að lokum greina frá því að hæstv. dómsmálaráðherra fól settum ríkislögreglustjóra að gera ákveðnar breytingar á rekstri almannavarnadeildar í því skyni að efla starfsemi hennar. Ég tel að þetta hafi verið mjög jákvæð skref. Sannast sagna held ég að þessi vetur hafi minnt rækilega á að þetta kerfi er eitt það mikilvægasta í samfélagsgerð okkar. Við erum land sem getur átt von á því að verða fyrir ýmsum skakkaföllum af völdum náttúrunnar og þegar við bætast alþjóðlegar ógnir eins og loftslagsváin, (Forseti hringir.) kórónuveiran og hvað annað má telja almannavarnakerfið algjöra grundvallarundirstöðu. Það skiptir máli og við höfum lært það á þessum vetri að þar þurfa allir að vera viðbúnir alltaf.