150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

Almannavarnir.

[16:44]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Starf björgunarsveita er afar dýrmætt fyrir samfélag okkar og verður aldrei almennilega metið til fjár. Mikilvæg sérfræðiþekking er til staðar innan björgunarsveita landsins sem nýtist við margvísleg björgunarstörf en það er vert að hafa í huga að á bak við hvern tíma í útkalli liggja a.m.k. 10–12 tímar við æfingar, þjálfun, viðhald og uppbyggingu á tækjum og innviðum og ekki má gleyma tímanum sem fer í að tryggja fjárhagslegan grundvöll fyrir reksturinn í heild sinni. Sjálfboðaliðar leggja til mikla fjárfestingu á persónulegum búnaði.

Einn öflugasti bakhjarl björgunarsveitanna er vinnuveitendur sem hleypa fólki úr vinnu til að sinna brýnum útköllum. Skilningur þeirra er mikilvægur. Útköllum hefur fjölgað, sérstaklega á landsbyggðinni, og það hefur kostnað í för með sér. Frá 10. desember og til dagsins í dag eru sjálfboðatímar björgunarsveita komnir upp í 44.000 tíma og útköllin orðin nærri 520. Þessu hafa sinnt rúmlega 2.000 manns. Þennan tíma, 44.000 klukkutíma, hafa þau tekið frá fjölskyldum sínum og atvinnu.

Menn hafa líka spurt hvort það sé réttlætanlegt að svona stór hluti almannavarnaviðbragðs landsins sé borinn uppi af sjálfboðaliðastarfi. Björgunarsveitirnar reiða sig að miklu leyti á sjálfboðastarf og aðalkostnaðurinn liggur í því að vera til taks með vel þjálfaðan mannskap sem býr yfir góðum búnaði sem ekki má bregðast.

Virðulegi forseti. Á síðustu vikum höfum við virkilega verið minnt á það hversu mikilvægar almannavarnir eru þjóðinni. Um árabil hafa þær verið á ábyrgð annars vegar lögreglustjóra í landinu og hins vegar sveitarfélaganna sem fara með almannavarnir í héraði. Almannavarnir heyra undir ríkislögreglustjóra sem er einn viðbragðsaðilinn. Til hliðar vinna aðrir viðbragðsaðilar að almannavörnum. Samræmingarhlutverk almannavarna ætti ekki að vera einskorðað við neyðaraðgerðir heldur vera hjartað í almannavarnasamfélagi landsins og lifa sjálfstæðu lífi.