150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

Almannavarnir.

[16:46]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Líkt og aðrir þakka ég þessa umræðu. Hún er mikilvæg og skiptir miklu máli. Það er grundvallarskylda ríkisvaldsins að gæta öryggis borgaranna. Öryggi borgaranna getur verið mjög margþætt þannig að það er í mörg horn að líta en mikilvægt að hafa í huga að þetta er frumskylda ríkisvaldsins.

Það er ljóður á okkar ráði að við sýnum oft litla fyrirhyggju, þ.e. við horfum kannski ekki fram í tímann og veltum fyrir okkur þeim verkefnum sem þarf að takast á við. Við erum dálítið gjörn á að bregðast við þegar upp koma atburðir og það gildir í almannavarnakerfinu og skipulagi þess, eins og svo víða reyndar í samfélaginu og í störfum stjórnvalda. Gildir það ekkert sérstaklega um þau stjórnvöld sem nú eru við völd heldur er það einkenni að við sýnum litla fyrirhyggju. Fyrirhyggja er forsenda þess að geta náð árangri, forsenda þess að geta skipulagt og verið í stakk búin til að takast á við þá áraun sem kann að steðja að hverju sinni.

Þarna held ég að við megum bæta okkur, í þessum efnum sem öðrum. Ég kem svo inn á tiltekin atriði í síðari ræðu minni.