150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

Almannavarnir.

[16:53]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil nýta þetta tækifæri og byrja á að þakka öllum þeim sem hafa staðið í framlínunni fyrir okkur í almannavörnum í vetur. Við eigum ykkur öllum mjög mikið að þakka og hefur ekki lítið mætt á ykkur þennan veturinn. Ég þakka sömuleiðis hv. málshefjanda fyrir að setja málið á dagskrá.

Hæstv. forsætisráðherra kom inn á mikilvægi þess að greina virkni almannavarna. Samkvæmt lögum um almannavarnir á rannsóknarnefnd almannavarna að starfa sjálfstætt og óháð stjórnvöldum og öðrum rannsóknaraðilum, ákæruvaldi og dómstólum. Rannsóknarnefnd almannavarna skal að loknu hættuástandi rannsaka þær viðbragðsáætlanir sem stuðst var við og viðbrögð viðbragðsaðila. Tilkynnt var að nefndin yrði virkjuð í fyrsta skipti í desember sl. til að skoða almannavarnir og viðbrögð þeirra við aðventustorminum svokallaða.

Herra forseti. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Er staðan virkilega sú að rannsóknarnefndin sé aðeins nýlega búin að fá inni í tómu skrifstofuhúsnæði? Er það rétt að nefndin geti ekki einu sinni óskað eftir gögnum og upplýsingum því að hún hefur engan stað til að setja gögnin á og hefur engar tölvur eða netföng til að óska eftir upplýsingunum? Hvernig stendur á því að nefnd sem á að hafa verið starfandi síðustu 12 ár, síðan lögin voru samþykkt, er ekki á fjárlögum og ekki enn búið að setja um hana reglugerð? Þetta er ekki einhver tímabundin nefnd, herra forseti, með einstakt verkefni og erindisbréf heldur er þetta nefnd sem var skipuð af Alþingi með lögum. Hvað ætlar hæstv. ríkisstjórn að gera til að tryggja að þeirri lagaskyldu sé sinnt sem kveðið er á um rannsóknarnefnd almannavarna í lögum um almannavarnir?

Herra forseti. Við höfum einstakt tækifæri eftir alla þá storma sem við höfum upplifað á landinu til að meta allt almannavarnakerfið, fara yfir hvað virkar og hvað ekki. Hvað er enn að þvælast fyrir okkur í framkvæmdinni í þúsundasta stormi vetrarins? Almannavarnakerfið bíður í óþreyju eftir að rannsóknarnefndin taki til starfa og komi með óháðar beinskeyttar athugasemdir um stöðu kerfisins og hvernig við getum bætt það. Við þurfum að tryggja (Forseti hringir.) að þau svör berist.