150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

Almannavarnir.

[17:00]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mér finnst mjög mikilvægt að halda því til haga, eins og raunar hefur komið fram, að orðið almannavarnir gefur sterkt til kynna að þær séu okkar allra eins og raunin er. Á sama hátt er mjög mikilvægt að ábyrgð á forystu og áætlanagerð um almannavarnir sé afmörkuð og skýr. Samkvæmt lögum fer ríkið með almannavarnir í landinu öllu en sveitarfélögin í héraði í samvinnu við ríkisvaldið. Þegar á reynir, eins og komið hefur svo vel í ljós í vetur, felast bjargir hvers byggðarlags í fólkinu sem þar býr, færninni sem það býr yfir og björgunum sem það hefur aðgang að, svo sem þekkingu, búnaði, raforku og olíubirgðum, jafnvel lyklum að húsum. Hættumat, viðbragðsáætlanir, skipulögð og þjálfuð aðgerð og vettvangsstjórn er þess vegna mjög mikilvæg í öllum byggðarlögum og þess vegna álít ég mjög mikilvægt að hættumat og almennar viðbragðsáætlanir séu unnar fyrir einstaka landshluta og hvert og eitt byggðarlag, jafnvel einstök svæði innan stórra dreifbýlissamfélaga þannig að við séum ekki að binda okkur við sveitarfélög eins og við höfum kannski haldið okkur við síðustu árin. Það þarf líka að endurskoða viðbragðsáætlanir oftar en nú er gert ráð fyrir, t.d. að lágmarki eftir hverjar sveitarstjórnarkosningar. Áhættumat og viðbragðsáætlanir þurfa að vera lifandi skjöl. Þó að launuðum starfsmönnum fjölgi í almannavörnum megum við aldrei gleyma því að í almannavarnaástandi þarf alltaf að treysta á að almennir borgarar sinni sínum borgaralegu skyldum á hættustundum, fylgi fyrirmælum eða nýti staðbundna þekkingu. (Forseti hringir.)

Að lokum verð ég að koma því að og leggja áherslu á að úrvinnsla og eftirfylgni fólks og samfélaga eftir áföll sé tryggð eins og nú hefur verið falið Rauða krossinum.