150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

Almannavarnir.

[17:05]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum enn að ræða almannavarnir. Ég held að það sé alveg komið á hreint að Covid-19 veiran á að kenna okkur ýmsa hluti. Við eigum að læra þá, við eigum að kortleggja og læra af henni. Af nægu er að taka. Það eru veikleikar í svona kerfi og ég spyr: Hvernig er almannavarnakerfi uppbyggt? Tala öll kerfin saman, tala þau sama tungumál? Eru þau samtengd? Er hægt að treysta því að samskiptin fari á milli?

Við erum með aðalstjórnstöð en erum við með einhverja færanlega stjórnstöð fyrir almannavarnir sem gæti verið tengd aðalstjórnstöðinni? Við þurfum að hugsa fyrir öllu svona. Það sýnir líka hvað við erum búin að gera eins og þegar kvikuinnstreymið var við Þorbjörn var strax bætt við mælum til að fylgjast með og fá upplýsingar. Þetta er það sem við þurfum að gera. Við erum með eldfjöll, við búum á eldfjallaeyju.

Síðan er það sem er mér mjög hugleikið og ég hef haft miklar áhyggjur af, snjóflóðin sem hafa dunið á okkur. Þar erum við líka að læra og lærum hratt til að koma í veg fyrir manntjón vegna þeirra.

Það var talað um að björgunarsveitirnar væru launalausar og að þetta sé sjálfboðaliðastarf. Ég segi fyrir mitt leyti að sumir eru vissulega í vinnu og þeir sem eru að vinna í þessu í sjálfboðavinnu eiga ekki að verða fyrir launatapi. Síðan eru vinnuveitendur sem gefa eftir tíma og borga kannski þann tíma sem fer í útköllin en það er ekki sanngjarnt. Ég held að sanngjarnast í því dæmi sé að enginn verði fyrir (Forseti hringir.) tapi af því að vera í sjálfboðavinnu. Svo þurfum við líka að tryggja að þessar björgunarsveitir fái það fjármagn sem þær þurfa á að halda.