150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

samkeppnislög.

610. mál
[17:45]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á samkeppnislögum. Frumvarpið felur í sér almenna endurskoðun á tilteknum þáttum laganna og breytingar sem leiða af nýlegum norrænum samningi um samstarf samkeppniseftirlita ríkjanna.

Staða efnahagsmála á Íslandi hefur verið mikið í umræðunni síðustu misseri og ákveðin teikn á lofti í þeim efnum. Verðbólga hefur verið í sögulegu lágmarki nú um nokkurn fjölda ára og íslenskt hagkerfi búið við áður sjaldséðan langvarandi stöðugleika sem ekki síst má rekja til þess uppgangs sem orðið hefur í ferðaþjónustu á undanförnum árum, sem nú er orðin stærsta útflutningsgrein landsins. Þessar breytingar hafa gert það að verkum að undir útflutningshlið hagkerfisins eru nú komnar fjölbreyttari stoðir en áður sem aftur leiða til aukins stöðugleika og áframhaldandi eftirspurnar í hagkerfinu.

Við höfum hins vegar verið að sjá að breytingar kunna að verða eða eru í vændum á ýmsum sviðum atvinnulífsins og nú síðast bætist við óvissa vegna smitveiru sem ekki sér fyrir endann á. Það er því mikilvægt að viðskiptalífið sé sveigjanlegt og kvikt og geti brugðist við óvæntum aðstæðum með skjótum fyrirvara og dregið úr þeim höggum sem kunna að lenda á atvinnulífinu. Þær breytingar sem lagðar eru til á samkeppnislögum með þessu frumvarpi vinna m.a. að því markmiði.

Samhliða stöðugleika undanfarinna ára höfum við einnig séð umtalsverða kaupmáttaraukningu samfara miklum launahækkunum sem hafa ekki leitt til samsvarandi verðlagshækkana líkt og oft gerðist áður fyrr. Það bendir til þess að mörg íslensk fyrirtæki búi við samkeppnislegt aðhald sem gerir það að verkum að þau geta ekki með auðveldum hætti hækkað verð til að viðhalda hagnaði heldur þurfa að leita annarra leiða, svo sem með hagræðingu, samruna og aukinni nýsköpun í rekstri. Þannig sýna ýmsir mælikvarðar sem notaðir eru á viðskiptalífið að á undanförnum árum hefur samkeppnislegt aðhald leitt til þess að svigrúm fyrirtækja til að auka hagnað með því einu að hækka verð í krafti markaðsráðandi stöðu hefur verið lítið hér á landi. Reynslan hefur sýnt að samkeppnislegt aðhald hvetur fyrirtæki til að leita nýrra leiða til að framleiða og bjóða vöru og þjónustu á markaði. Þetta aðhald leiðir til þess að fyrirtæki skila ábata hagræðingar og aukinnar nýsköpunar að miklu leyti út í verðlag og neytendur og fyrirtæki njóta þannig í heild sinni góðs af sem myndi ekki gerast ef samkeppnislegt aðhald væri ekki til staðar. Það er þannig til mikils að vinna fyrir íslenskt atvinnulíf að samkeppni á mörkuðum sé virk og fyrirtæki þurfa að vera á tánum gagnvart keppinautum sínum, enda felst einn helsti ábati markaðshagkerfisins í þeim hvötum sem verða til í virku samkeppnisumhverfi. Virk samkeppni hefur jákvæð áhrif á verð, gæði, nýsköpun og samkeppnishæfni fyrirtækja og almenningi er þetta almennt ljóst, eins og kom fram í könnun sem MMR framkvæmdi fyrir Samkeppniseftirlitið á síðasta ári. Í könnuninni kom einnig fram að 97% svarenda telja virka samkeppni hafa jákvæð áhrif á sig sem neytendur sem er umtalsvert hærra hlutfall en að meðaltali í ESB-ríkjunum. Í framangreindu tilliti eru samkeppnislögin afar mikilvæg, enda er það markmið þeirra að vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins með því að efla virka samkeppni í viðskiptum.

Með frumvarpinu er lagt til að við markmiðsákvæði laganna í 1. gr. bætist það markmið að stuðla að heilbrigðu samkeppnisumhverfi til hagsbóta fyrir neytendur. Með því er einnig áréttað það mikilvæga hlutverk Samkeppniseftirlitsins að stuðla að uppbyggilegri og málefnalegri umræðu um samkeppnismál sem leiði af sér heilbrigt samkeppnisumhverfi til hagsbóta fyrir bæði fyrirtæki og neytendur. Þær breytingar á samkeppnislögum sem lagðar eru til í frumvarpinu eru afrakstur vinnu síðustu missera þar sem framkvæmd laganna á undanförnum árum var tekin til skoðunar með það að leiðarljósi að einfalda framkvæmd þeirra sem kostur er, en jafnframt að gæta þess að ekki yrði gengið gegn verndarhagsmunum laganna og eftirlit með þeim væri skilvirkt. Af þessari vinnu hefur leitt að rétt þykir að gera nokkrar breytingar á lögunum sem ég mun nú í stuttu máli fjalla um.

Í fyrsta lagi er lagt til að verklagi vegna undanþágu frá bannákvæðum laganna verði breytt. Í því felst að 15. gr. laganna verði breytt þannig að fyrirtæki munu sjálf leggja mat á það hvort skilyrði ákvæðisins fyrir lögmætu samstarfi fyrirtækja séu uppfyllt. Samkvæmt gildandi lögum þurfa fyrirtæki nú að leita til Samkeppniseftirlitsins eftir formlegri ákvörðun þar sem viðkomandi samstarf er heimilað eða ekki. Það er ljóst að þetta fyrirkomulag getur hamlað sveigjanleika og skilvirkni þótt það feli einnig í sér mikla réttarvissu fyrir fyrirtæki. Almennt er fyrirkomulag í Evrópu þannig að fyrirtæki meta skilyrðin sjálf og því eðlilegt að svo sé einnig hér á landi.

Mér þykir rétt að árétta það hér að í þessari breytingu felst engin efnisbreyting á þeim skilyrðum sem þurfa að vera uppfyllt heldur felur breytingin aðeins í sér breytingu á verklagi.

Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á samrunareglum laganna sem einnig er ætlað að einfalda framkvæmd þeirra og gera fleiri samrunaaðilum kleift að skila styttri samrunatilkynningum. Reynsla af styttri samrunatilkynningum hefur verið góð en heimild til að skila styttri tilkynningum kom inn í samkeppnislög árið 2008. Í frumvarpinu er lagt til að skilyrði til að skila styttri samrunatilkynningu verði rýmkuð og efni tilkynninganna verði einfaldað. Einnig er lagt til að Samkeppniseftirlitinu verði heimilt að veita samrunaaðilum heimild til að skila styttri tilkynningu þrátt fyrir að ekki séu öll skilyrði uppfyllt og eftirlitinu verði einnig heimilt að veita samrunaaðilum undanþágu frá efniskröfum tilkynningar. Til að slíkar undanþágur séu mögulegar þurfa að hafa átt sér stað samskipti milli Samkeppniseftirlitsins og samrunaaðila í aðdraganda þess að samrunatilkynning er send. Þannig er eitt markmiða frumvarpsins að koma slíkum samskiptum á í meira mæli en verið hefur, en það þekkist víða erlendis að samrunaaðilar eiga í skipulögðum samskiptum við samkeppnisyfirvöld áður en samrunatilkynning er send og lögbundnir frestir byrja að líða. Slík samskipti stuðla að vandaðri meðferð samrunamála og betri rannsókn og eru til hagsbóta fyrir alla sem koma að samrunamálum.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að veltumörk tilkynningarskyldra samruna verði hækkuð. Þau mörk segja til um það hvenær lögboðið er að Samkeppniseftirlitinu sé tilkynnt um samruna og miða þau við veltu samrunaaðila. Í ljósi reynslu undanfarinna ára, breytinga í íslensku efnahagslífi og verðlagsbreytinga er lagt til að veltumörkin verði hækkuð um 50%.

Í þriðja lagi er lögð til breyting á kæruferli ákvarðana Samkeppniseftirlitsins þannig að skilyrði um að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála þurfi að liggja fyrir áður en dómsmál er höfðað verði felld brott. Breytingin felur í sér möguleika fyrirtækja á að meta það í hverju tilviki fyrir sig hvort það þjóni hagsmunum þeirra að kæra ákvörðun til áfrýjunarnefndarinnar eða höfða mál fyrir dómstólum. Samkvæmt gildandi lögum hefur Samkeppniseftirlitið heimild til að höfða mál til ógildingar á úrskurðum áfrýjunarnefndar samkeppnismála og samspil þess og skilyrði sem og að úrskurður áfrýjunarnefndarinnar þurfi að liggja fyrir áður en dómsmál er höfðað hefur leitt til þess að í einhverjum tilvikum hefur málsmeðferð slíkra mála verið óþarflega löng. Er einnig horft til þess að með tilkomu Landsréttar hafa orðið grundvallarbreytingar á skipan dómstóla hér á landi og því eðlilegt að taka til skoðunar feril endurskoðunar á ákvörðunum Samkeppniseftirlitsins. Það er almenn regla í stjórnsýslurétti að aðili máls hefur val um það hvort hann kærir ákvörðun til æðra setts stjórnvalds eða höfði beint mál fyrir dómstólum og sérstök rök þarf til undantekninga á því. Með þessari breytingu mun það sama gilda um ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins og flestra annarra stjórnvalda að þessu leyti.

Aðrar breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru m.a. að lagt er til að heimild Samkeppniseftirlitsins til íhlutunar og brots verði felld brott, að gerð verði sú breyting á starfsskilyrðum forstjóra Samkeppniseftirlitsins að hann verði ráðinn til fimm ára í senn og geti í mesta lagi verið í embætti í tíu ár. Þessi breyting hefur ekki áhrif á starfsskilyrði núverandi forstjóra. Þá eru lagðar til breytingar vegna nýs norræns samnings samkeppnisyfirvalda á Norðurlöndum um samstarf í samkeppnismálum. Samningurinn er mikilvægur enda eru Norðurlöndin öll hluti af hinum sameiginlega innri markaði þar sem fyrirtæki starfa þvert á landamæri og mikilvægt að samkeppnisyfirvöld geti haft með sér samstarf og upplýsingaskipti við rannsókn mála sem hafa áhrif í fleiri en einu landi. Þá er lögð til breyting á innheimtu samrunagjalds og styrkri lagastoð skotið undir þá framkvæmd Samkeppniseftirlitsins að gera þegar það á við í sátt við fyrirtæki um að taka á sig tilteknar skuldbindingar í tengslum við rannsókn mála án þess að viðurkenna sök.

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem ég mæli fyrir er í anda þeirrar einföldunar sem unnið hefur verið að í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu þar sem lögð er áhersla á að einfalda og skýra starfsumhverfi fyrirtækja án þess að gengið sé á vernd þeirra almannahagsmuna sem opinberu eftirliti er ætlað að tryggja. Þannig er frumvarpið til þess fallið að efla íslenskt atvinnulíf til framtíðar og auka þannig velsæld þjóðarinnar.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar.