150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

samkeppnislög.

610. mál
[18:09]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þann þátt sem er ekki komin inn í EES-samninginn þá er það eðlilegt, það er m.a. vegna ágreinings um tveggja stoða lausn, það er út af því sem við erum ekki að gera það hér. Mér finnst það eðlilegur farvegur og eðlileg vinnubrögð að gera þetta í réttri röð. Sem betur fer fara öflugt atvinnulíf og hagsmunir atvinnulífs og hagsmunir neytenda að einhverju leyti saman. Ekki er hægt að stilla því þannig upp að ef maður er að auka skilvirkni í þágu atvinnulífs til þess að atvinnulíf geti brugðist við þeim breytingum sem eru fram undan og við þeirri stöðu sem uppi er sé maður þar með á einhvern hátt að traðka á hag neytenda.

Ég er sjálf þeirrar skoðunar að skilvirkt og öflugt samkeppniseftirlit sé lykilatriði í markaðshagkerfi. Þar sem þú ert með virkt markaðshagkerfi þarftu að vera með virkt samkeppniseftirlit. Ef við værum eingöngu með þjóðnýtingu og ríkisfyrirtæki og stýrðan markað frá hinu opinbera þá þyrftum við ekkert öflugt samkeppniseftirlit þannig að ég er enginn andstæðingur þess. Það var löngu kominn tími á endurskoðun á samkeppnislögunum. Sú vinna hefur verið í gangi mjög lengi og raunar fyrir mína tíð líka. Það er annað mál hvort skipa hefði átt þverfaglegan eða þverpólitískan hóp til að fara yfir það. Það er fullseint í rassinn gripið, hér er frumvarpið. Það fer í þinglega meðferð. Ég er þeirrar skoðunar, annars væri ég ekki að leggja frumvarpið fram, að þetta bæti umhverfi atvinnulífs hér á landi. Það er nú þannig að öflugt og heilbrigt atvinnulíf er forsenda verðmætasköpunar og forsenda þess að samkeppni skili því að hagur neytenda bætist.