150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

samkeppnislög.

610. mál
[18:21]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Við erum nú í fyrstu vikunni í mars þannig að þrír mánuðir eru til þingloka. Ég hefði gert ráð fyrir því fyrir fram að það væri góður tími fyrir nefndina til að taka málið til þinglegrar meðferðar. Ég tek undir það með hv. þingmanni að ég óska nefndinni góðs gengis við að ná samstöðu, bæði um málið og mögulegar breytingar. Ég vildi síðan nefna það hér að samráðskafli þessa frumvarps er, leyfi ég mér að segja, með þeim betri sem sést hefur í frumvarpi; þeir eru alla vega ekki oft svona vel reifaðir, þar sem það kemur raunverulega fram og er rakið hvaða athugasemdir bárust, hvers eðlis þær voru og hvaða afstaða er tekin og hvers vegna. Sá samráðskafli finnst mér til fyrirmyndar, sérstaklega í máli sem er veigamikið þar sem hagsmunir liggja víða. Mér finnst það skipta máli, og kannski lyfta samráðsgáttinni svolítið upp, að hún skilar því þó að öll þessi sjónarmið bárust og voru tekin til skoðunar og rök færð fyrir því hvers vegna þetta er á endanum niðurstaðan. Ég vildi hrósa þeim sem smíðuðu frumvarpið í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu fyrir að hafa samráðskaflann með þessum hætti. Ég held að þetta sé þróun sem við eigum að stefna að, þ.e. að samningskaflinn sé þéttari, gagnsærri og endurspegli raunverulega þau sjónarmið sem komu fram. En ég átta mig líka á því að ekki er farið að öllum þeim sjónarmiðum sem bárust, enda hefði það verið ógerningur í frumvarpinu vegna eðlis umsagna.