150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

samkeppnislög.

610. mál
[18:23]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið. Þrír mánuðir — nægur tími til umfjöllunar? Það má benda á að ég hygg að það séu u.þ.b. þrír mánuðir frá því að málið var í samráðsgátt stjórnvalda, ef ég man rétt, og það kemur meira og minna óbreytt fyrir Alþingi. Það tók ráðuneytið því þrjá mánuði að koma frumvarpinu óbreyttu til þings. Það er alveg rétt, þegar horft er til afrakstursins af samráðsgáttinni, að í því felst víðtækt samráð. Öllum gefst tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum að líkt og í þinglegri meðhöndlun. En ég ítreka enn og aftur: Hver er tilgangurinn með slíku samráði ef ekkert er hlustað á slíkar athugasemdir, margar hverjar mjög málefnalegar og vel rökstuddar? Ég hljóp yfir það lauslega að mér sýndist að þetta mál hefði tekið þeim breytingum einum, og hæstv. ráðherra leiðréttir mig ef ég hef rangt fyrir mér, að einni grein hefði verið skipt upp, ef ég man rétt, ein grein felld út, sem talin var brjóta gegn EES-samningnum, en að öðru leyti standi frumvarpið meira og minna óbreytt, orðrétt, frá því sem birtist í samráðsgáttinni. Ég gat ekki séð, alla vega ekki í fljótheitum, í samlestri frumvarpsins eins og það lá fyrir í samráðsgáttinni og frumvarpsins eins og það kemur fyrir þingið, að annan mun sé að finna á þessum tveimur útgáfum.