150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

samkeppnislög.

610. mál
[18:26]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka þá gagnrýni sem ég hef sett fram á samráðsgáttina. Ekki að ég sé andvígur slíku samráði, þvert á móti. Ég tel þann þátt í þinglegri meðferð vera mikilvægasta þáttinn, þ.e. tækifæri hagsmunaaðila til að koma að athugasemdum og umsögnum og koma fyrir fastanefndir þingsins til að ræða málin vandlega svo að nefndirnar geti einmitt unnið sig vel í gegnum slíkar umsagnir. Mínar áhyggjur hafa fyrst og fremst snúið að því að samráðsgátt stjórnvalda hefur orðið einhvers konar viðbótarumsagnarferill. Við heyrum síðan ítrekað fyrir nefndunum þá gagnrýni af hálfu umsagnaraðila að lítið eða ekkert tillit sé tekið til þeirra umsagna sem koma fram í samráðsgáttinni. En það samráðsferli tekur hins vegar langan tíma sem þingið hefði ella haft til umfjöllunar um málið. Það er tilfellið hér, eins og í svo mörgum málum, að þetta mál hefði sennilega getað komið fyrir þingið til þinglegrar meðferðar í haust í því formi sem það er hér nú í byrjun mars — þrír mánuðir þegar hefðbundinn umsagnarfrestur er þrjár vikur. Við þekkjum svo hvernig málsmeðferðin er í hinn endann, þegar þingið er að drukkna síðustu vikurnar og veit varla hvaða dagur er vegna þeirrar hraðmeðferðar sem öll stjórnarmálefnin sem koma seint fram þurfa að fá — og þau eru ekki fá núna, ætli það eigi ekki eftir að leggja hér, samkvæmt þingmálaskrá, fyrir ein 100 stjórnarmál fram að þinglokum og afgreiða þau væntanlega. Það er meira en að segja það fyrir þingið að eiga á sama tíma að vinna svona mikilvæg mál með vönduðum hætti þegar á að troða öllu hinu í gegn með. Það eru mínar áhyggjur af þessu fyrst og fremst og það þykir mér miður í þessu ferli.